Kynjajafnrétti er forsenda velferðar og hagsældar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, flutti í gær ræðu Íslands í almennum umræðum á 58. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna.
Árangur og áskoranir sem varða framkvæmd þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um aukið kynjajafnrétti og bætta stöðu kvenna er megin umræðuefni fundar kvennanefndarinnar í ár. Sameinuðu þjóðirnar hafa frá árinu 2000 unnið að framkvæmd átta þúsaldarmarkmiða sem eru raunhæf og tímasett markmið ætluð til hjálpar í báráttunni gegn fátækt, hungri, sjúkdómum, ólæsi og mismunun gegn konum. Samhliða markmiðunum eru nokkur undirmarkmið eða áfangar sem ætlaðir eru sem framkvæmdaáætlun sem leiðbeinir um hvernig uppfylla eigi markmiðin fyrir árið 2015. Endurskoðun markmiðanna stendur yfir en Sameinuðu þjóðirnar fagna því sérstaklega að miklum árangri hefur verið náð hvað varðar markmiðin um aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun og að þeim sem lifa við sára fátækt hefur fækkað um helming síðan markmiðin tóku gildi.
UN Women hefur fangað þessum árangri en jafnframt bent á að vinnan við framkvæmd markmiðanna hafi skilað ólíkum árangri fyrir konur og menn. Enn hafi ekki tekist að tryggja rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama og allt of lítill árangur hafi orðið hvað varðar meðgönguvernd og minnkun mæðradauða. Alþjóðasamfélaginu hafi hins vegar tekist að vekja athygli á mikilvægi jafnréttismála fyrir alla þróunarsamvinnu og tengslum kynjajafnréttis við aukna velferð og hagsæld jarðarbúa. Stjórnvöldum víða um heim væri nú ljóst að án þátttöku kvenna væri ekki hægt að ná markmiðum um friðaruppbyggingu, fæðuöryggi, lýðræðislega stofnanauppbyggingu og jafnt aðgengi að menntun svo að einhver dæmi séu nefnd.
Eylgó lagði í ræðunni áherslu á að aukið kynjajafnrétti væri lykillinn að nýjum sjálfbærum þróunarmarkmiðum sem munu taka við af þúsaldarmarkmiðunum og ítrekaði að Ísland og Norðurlöndin vilji að sérstakt markmið verði sett um réttindi og valdeflingu kvenna með áherslu á efnahagsleg og pólitísk réttindi, aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi. Auk þess sé æskilegt að kynjasjónarmið verði samþætt öðrum markmiðum Í nýjum sjálfbærum þróunarmarkmiðum sem munu taka við af þúsaldarmarkmiðunum.
Eygló sagði að á öllum Norðurlöndunum hefði menntunarbylting og mikil atvinnuþátttaka kvenna verið undirstaða velferðar og efnhagslegar hagsældar. Hún minnti á mikilsvert framlag kvennahreyfingarinnar og sagði frá íslenska kvennafrídeginum sem fram fór á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október 1975. Þá hefði um fjórðungur íslenskra kvenna lagt niður vinnu til að leggja áherslu á mikilvægi framlags vinnu þeirra til íslensks efnahagslífs.
Í dag standa norrænir ráðherrar jafnréttismála fyrir pallborðsumræðum um menntun sem leið til að stuðla að jafnrétti og styrkja stöðu kvenna (Promoting Gender Equality and Empowering Women and Girls Through Education), þar sem þeir segja frá því hvernig stjórnvöld beita stefnumótandi ákvörðunum og beinum aðgerðum til að hvetja stúlkur og konur til náms og starfa í raun- og tæknigreinum og til að fjölga konum í stjórnunarstöðum.