Breytingar á löggjöf um plastpoka í farvatninu í Evrópu
Evrópuþingið leggur til að bannað verði að gefa plastpoka í verslunum og að eftir 2019 verði einungis heimilt að nota poka sem búnir eru til úr endurnýttum pappír eða niðurbrjótanlegum efnum. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var af umhverfisnefnd þingsins og kynnt var í liðinni viku.
Léttir plastpokar eru iðulega notaðir einu sinni en geta dagað uppi í náttúrunni og umhverfinu í hundruð ára, oft í formi örsmárra plastagna sem geta verið skaðleg, ekki síst fyrir lífríki hafsins. Talið er að árlega fari átta milljarðar plastpoka í ruslið í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið. Sér í lagi eru plastpokar sem eru þynnri en 50 míkron skaðlegir þar sem þeir eru sjaldnar endurnýttir en aðrir plastpokar og verða því fljótt að úrgangi.
Tillögur Evrópuþingsins miða að því að stemma stigu við þessu vandamáli. Hafa Evrópuþingmenn sagt að hægt sé á stuttum tíma að draga úr notkun einnota plastpoka og eru í skýrslunni lögð til markmið og tímasettar aðgerðir í því skyni.
Í skýrslu þingsins er miðað við að Evrópuríki muni draga úr plastpokanotkun um a.m.k 50% fyrir árið 2017 og um 80% fyrir 2019. Bent er á að ríki geti gripið til aðgerða á borð við skattlagningu, gjaldtöku og sett hömlur eða bönn á markaðssetningu plastpoka, en slíkar aðgerðir hafa reynst árángursríkar til að draga úr notkun þeirra. Meðal tillagna er að skylt verði að taka gjald fyrir plastpoka í verslunum að undanskildum örþunnum pokum sem notaðir eru undir laus matvæli. Notkun þeirra verði einnig hætt fyrir 2019 og í stað þeirra verði komnir pokar úr endurunnum pappír eða öðrum efnum sem brotna hratt niður í náttúrunni.
Gert er ráð fyrir að Evrópuþingið greiði atkvæði um skýrsluna 14. – 17. apríl en reynslan af sambærilegum aðgerðum í nokkrum aðildaríkja ESB sýnir að auðvelt sé að draga úr notkun plastpoka marki stjórnvöld heildstæða stefnu þar um.
Slíkar breytingar á löggjöf ESB falla undir EES-samninginn og koma því til framkvæmda hér á landi verði þær að veruleika.