Leiðbeinandi sjónarmið vegna veitingar dvalarleyfa á grunni sérstakra tengsla við landið
Samin hafa verið í innanríkisráðuneytinu nokkur leiðbeinandi sjónarmið sem horft skal til við veitingu dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla við landið á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga nr. 96/2002.
Í inngangi segir meðal annars að það sé stefna innanríkisráðherra að meta skuli mannauð frá öðrum löndum mikils vegna þeirrar skoðunar að útlendingar stuðli að fjölbreyttara mannlífi, bæti íslenskt samfélag og geti aukið hagvöxt og lífsgæði hér á landi. Sé mikilvægt að meðferð stjórnvalda á umsóknum um dvalar- og búsetuleyfi sé sanngjörn og túlkun á útlendingalögum sé umsækjanda í vil.
Lagt er til að sjónarmiðin sem fram koma í leiðbeiningunum skuli höfð að leiðarljósi við ákvörðun Útlendingastofnunar og við úrskurði ráðuneytisins þegar óskað er dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland á grundvelli 12. gr. f. útlendingalaga. Gengið er út frá því að hvert tilvik skuli metið sérstaklega með hliðsjón af aðstæðum í því máli. Þannig ráði heildarmat ávallt niðurstöðu máls.