Aukinn sveigjanleiki með breytingum á byggingarreglugerð
Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hefur verið undirrituð breyting á byggingarreglugerð. Breytingin lýtur einna helst að 6. hluta reglugerðarinnar um markmið og algilda hönnun og miðar fyrst og fremst að því að auka sveigjanleika við gerð íbúðarhúsnæðis.
Breytingarnar á reglugerðinni lúta m.a. að kröfum um stærðir einstakra rýma í íbúðum, lágmarkssvæði fyrir hjólastóla, kröfum um lyftur í fjölbýlishúsum, fjölda gistiherbergja fyrir hreyfihamlaða sem og fjölda íbúða á stúdentagörðum og herbergja á heimavistum, sem skal vera hægt að innrétta fyrir hreyfihamlaða.
Með breytingunum hafa kröfur um lágmarksstærðir rýma í mörgum tilvikum verið felldar brott en í stað þess sett inn markmið, sem veita ákveðið rými við útfærslu hönnunar. Dæmi um samanburð þar sem lagt hefur verið mat á stærðir með breyttum reglum.
Þannig getur lágmarksstærð íbúðar, sem er eitt herbergi, minnkað um a.m.k. 5 – 8%. Ef gert er ráð fyrir að geymsla og þvottaaðstaða sé í sameign og ekki er gerð krafa um anddyri getur slík íbúð verið um 25 fermetrar nettó án sameignar.
Lágmarksstærð íbúðar, sem er með einu litlu svefnherbergi, getur sömuleiðis minnkað um a.m.k. 4 - 8%. Ef gert er ráð fyrir að geymsla og þvottaaðstaða sé í sameign og ekki er gerð krafa um anddyri getur slík íbúð verið um 32 – 33 fermetrar nettó án sameignar.
Helstu breytingar á byggingarreglugerðinni eru eftirfarandi:
- Í gr. 2.3.5 er fjölgað minniháttar framkvæmdum sem undanþegnar eru byggingarleyfi.
- Í gr. 4.5.3 er bætt við að greinargerðir hönnuða skuli ná til rakaþéttingar ef við á.
- Í gr. 4.7.2 er rýmkuð heimild hönnuða og iðnmeistara til að geta jafnframt verið byggingarstjórar á litlum húsum þar sem stærðarviðmið fer úr 35 m2 í 60 m2.
- Dregið er úr kröfum um breidd gönguleiðar að mannvirkjum í gr. 6.2.3, sem skal vera að lágmarki 1,5 m, en 1,8 m við opinberar byggingar og þar sem vænta má mikillar umferðar. Einnig er dregið úr kröfum um stærð hvíldarflatar fyrir hjólastóla, sem skal vera 1,50 m x 1,50 m og 1,80 m x 1,80 m þar sem umferð er mikil.
- Í gr. 6.2.4 er dregið úr kröfum um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhúsnæði.
- Í gr. 6.4.2 er dregið úr kröfum um hindrunarlausa umferðarbreidd og –hæð svala- og garðdyra, sem skal vera 0,80 m x 2,00 m. Einnig er dregið úr kröfum um stærð flatar framan við aðalinngang, sem skal vera 1,50 m x 1,50 m og 1,80 m x 1,80 m ef umferð er mikil. Sama gildir um hliðarrými utan við inngangsdyr/útidyr sem skal vera a.m.k. 0,50 m og heimilað er að svalagólf geti verið 100 mm lægra en gólf byggingar að þröskuldi meðtöldum.
- Í gr. 6.4.3 er dregið úr kröfum um hindrunarlausa umferðarbreidd og –hæð innihurða, sem skal vera 0,80 m x 2,00 m þar sem krafist er algildrar hönnunar og 0,70 m x 2,00 m í öðrum byggingum.
- Í gr. 6.4.4 er dregið úr kröfum um lágmarksstærð flatar utan við hurðir á gangi eða svalagangi, sem skal vera 1,50 m x 1,50 m og 1,80 m x 1,80 m þar sem umferð er mikil. Þá er heimilt að víkja frá þessu við geymslur í sameign.
- Í gr. 6.4.11 er dregið úr kröfum um lágmarksstærð flatar þar sem skábraut kemur að útidyrum, sem skal vera 1,50 m x 1,50 m og 1,80 m x 1,80 m þar sem umferð er mikil. Þá skulu hvíldarpallar koma við hverja 0,60 m hækkun þegar hæðarmunur er jafnaður og lengd þeirra stytt í 1,50 m þar sem umferð er lítil.
- Í gr. 6.4.12 er bætt við heimild til að víkja frá kröfu um lyftu í þriggja hæða íbúðarhúsi með fjórum íbúðum eða færri í þegar byggðu hverfi. Heimildin er bundin við litlar lóðir og skilyrt er að krafa um lyftu muni leiða til verulegrar óhagkvæmni. Einnig er dregið úr kröfum um lágmarksstærð lyftu í þriggja hæða íbúðarhúsum, sem skal þó henta til notkunar fyrir fólk í hjólastólum. Sama gildir um aðra lyftu í 8 hæða og hærri íbúðarhúsum. Dregið er úr kröfum um hindrunarlaust umferðarmál lyftudyra, sem skal vera 0,80 m x 2,00 m og einnig er dregið úr kröfum um stærð athafnasvæðis framan við lyftudyr í þriggja hæða íbúðarhúsnæði.
- Í gr. 6.7.3 er felld brott krafa um læsanlegan skáp fyrir lyf og efni og jafnframt krafa um skáp eða geymslu fyrir ræstingatæki.
- Í gr. 6.7.6 er ákvæði um lofthæð breytt þannig að það nær til íbúðarherbergja og eldhúss í stað íbúðarherbergja og vistarvera áður. Þá er ákvæði um birtuskilyrði og loftskipti breytt þannig að íbúðir skulu nú að öllu jöfnu hafa a.m.k. tvær glugghliðar nema íbúðir minni en 55 m2.
- Ákvæði um eldhús í gr. 6.7.7 breytast í markmiðsákvæði og stærðarkrafa er felld brott.
- Krafa um lágmarksstærð íbúðarherbergis í gr. 6.7.8 er felld niður og gildir því markmiðsákvæði greinarinnar. Þá er heimilt að í íbúðum minni en 55 m2 að hinrunarlaust athafnarými í stofu og einu svefnherbergi við rúm og skáp sé 1,30 m að þvermáli í stað 1,50 í stærri íbúðum.
- Í gr. 6.7.10 er krafa um lágmarksstærð baðherbergja felld niður og sett fram markmiðsákvæði þess í stað. Þá er dregið úr kröfum um lágmarksþvermál snúningssvæðis í íbúðum minni en 55 m2, sem skal vera 1,30 m, en aðeins er krafa um slíkt svæði í einu baðherbergi.
- Í gr. 6.7.11 eru krafa um lágmarksstærð þvottaherbergja felld niður og sett fram markmiðsákvæði þess í stað. Þá er lágmarksþvermál snúningssvæðis 1,50 m en í íbúðum minni en 55 m2 1,30 m.
- Í gr. 6.7.12 eru kröfur um lágmarksstærð sameiginlegra þvottaherbergja felld niður, sett fram markmiðsákvæði þess í stað og skal lágmarksþvermál snúningssvæðis vera 1,50 m.
- Í gr. 6.7.13 er dregið úr stærðarkröfum til geymslna sem tilheyra íbúðum.
- Í gr. 6.10.3 er dregið úr kröfum um fjölda gistiherbergja fyrir hreyfihamlaða.
- Í gr. 6.10.4 er m.a. dregið úr kröfum um fjölda íbúða á stúdentagörðum og herbergja á heimavistum sem skulu vera innréttanleg fyrir hreyfihamlaða.
- Í gr. 6.11.1 er dregið úr kröfum um fjölda frístundahúsa til útleigu í atvinnuskyni eða á vegum félagasamtaka sem skulu vera hönnuð á grundvelli algildrar hönnunar.
Í kjölfar birtingar reglugerðarinnar í Stjórnartíðindum verður hægt að nálgast hana á www.reglugerd.is og uppfærða útgáfu byggingarreglugerðarinnar í heild á vef Mannvirkjastofnunar.