Hoppa yfir valmynd
20. mars 2014 Utanríkisráðuneytið

Ræða Eyglóar Harðardóttur á Alþingi 20. mars 2014

Virðulegi forseti,

 

Ég tala hér fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2013. Skýrslan nær yfir það samstarf ráðherra og ráðuneyta sem tengjast ráðherranefndinni og er formlega bundið í norrænum samningum. Þá er þar gerð grein fyrir norrænu samstarfi forsætis- og utanríkisráðherra sem er bæði náið og víðtækt þó þeir starfi ekki saman undir formerkjum ráðherranefndarinnar.

 

Það er þakkarvert hvað skýrslan hefur verið unnin í góðri samvinnu allra ráðuneyta og í henni er leitast við að draga saman það helsta sem unnið var að á árinu. Eins og þeir sem hafa komið nálægt norrænu samstarfi þekkja vel, þá er samstarfið á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar afskaplega víðtækt og því engin leið að ná að gera því tæmandi skil í svo stuttri skýrslu. Ég vil hvetja þá sem vilja kynna sér nánar einstaka þætti norræns samstarfs til að fara á netið, á vefsíðu ráðherranefndarinnar þar sem mikill fjöldi skýrslna er að finna sem Norræna ráðherranefndin sendir frá sér á hverju ári.

 

Það eru nokkur atriði sem ég vil sérstaklega fara yfir, sem ég tel að hafi borið hæst, bæði að því er varðar okkur Íslendinga sérstaklega og einnig að því er varðar störf ráðherranefndarinnar.

 

------

 

Hér heima einkenndist árið að sjálfsögðu af lokasprettinum í undirbúningi fyrir formennsku okkar í Norrænu ráðherranefndinni 2014. Ég vil þakka sérstaklega  háttvirtum þingmanni Katrínu Jakobsdóttur, sem er forveri minn í starfi sem samstarfsráðherra Norðurlanda, fyrir þá frábæru vinnu sem hún innti af hendi í þessu starfi. Þau þrjú formennskuverkefni sem við höfum verið að vinna að er eitthvað sem við getum þakkað henni fyrir. Á fundi samstarfsráðherranna í febrúar kynnti Ísland þrjú umfangsmikil formennskuverkefni sem samkomulag var um í ríkisstjórn að yrðu þungamiðjan í formennskuáætlun okkar. Á miðju ári var tekin endanleg ákvörðun um að ráðast í verkefnin eftir að samstaða hafði tekist í viðkomandi ráðherranefndum um fýsileika þeirra, en það hefur fylgt því talsverð vinna að kynna þau á norræna vísu og vinna þeim fylgi í norræna samstarfskerfinu.  

 

Samkvæmt nýju fyrirkomulagi í norrænu fjárlögunum mun Ísland geta ráðstafað samanlagt 45 milljónum danskra króna til formennskuverkefnanna sem dreifist á þrjú ár, þ.e. 2014, 2015 og 2016. Skilyrði fyrir að fá þessa fjármuni í formennskuverkefnin er að um er að ræða umfangsmikil og pólitískt mikilvæg verkefni en það er tölvuverð breyting frá því sem var, þegar formennskuárið einkenndist af stuttum verkefnum og ráðstefnum sem þurftu að eiga upphaf sitt og endir innan formennskuársins. Samhliða þeim formennskuverkefnum sem við erum með nú, þá eru líka í gangi þau verkefni sem Svíþjóð startaði á síðasta ári og við munum halda áfram að vinna að okkar verkefnum á næsta ári þegar Danmörk tekur við formennsku af okkur í Norrænu ráðherranefndinni.

 

Stærsta formennskuverkefni Íslands er Norræna lífhagkerfið eða NordBio eins og það nefnist á skandinavísku. Með því verkefni er verið að beina kastljósinu að uppbyggingu og eflingu lífhagkerfisins á Norðurlöndum, hvernig við getum unnið gegn hvers kyns sóun á lifandi auðlindum, svo sem við framleiðslu og neyslu á matvælum, og fundið leiðir til þess að skapa ný verðmæti og atvinnutækifæri á grundvelli þessara lifandi auðlinda okkar. Þetta verkefni, sem byggist á nýsköpun á grundvelli lífrænna auðlinda, er að okkar mati afgerandi þáttur í að ná markmiðum norrænu ríkisstjórnanna um grænan hagvöxt og sjálfbæra þróun og er þungamiðja í formennsku Íslands. Við viljum leggja okkar af mörkum til þess að markmið um nýskapandi Norðurlönd nái fram að ganga, þar sem við náum betri gæðum og skilvirkni með samvinnunni.

 

Þetta er þverfaglegt verkefni og að framkvæmd verkefnisins hér heima koma umhverfis- og auðlindaráðuneyti, atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti og ég vil sérstaklega nefna að undir mennta- og menningarmálaráðuneyti er mjög spennandi verkefni sem kallast BioPhilia og byggir á hugmyndafræði söngkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur um hvernig má nota nýjar kennslufræðilegar aðferðir til að kenna börnum. Þá eru öflugar stofnanir sem vinna með okkur í verkefnum á borð við Matís, Hafrannsóknastofnun, Landgræðsluna og Umhverfisstofnun. Einn af þeim hlutum sem hér er hugað að er hvernig við getum dregið úr sóun á matvælum en það er talið að það sé gífurlegt magn af matvælum sem við fleygjum daglega og að við gætum brauðfætt gífurlegan fjölda fólks ef við myndum hætta að fleygja mat. Þetta er fyllilega í samræmi við áherslur Norðurlandaráðs en baráttukonan Selina Juul fekk umhverfisverðlaunin fyrir hreyfingu sem hún er upphafsmaður að og nefnist „Stop spild af mad“. Við vonumst til að hún komi í heimsókn til landsins á þessu ári. 10 milljónum danskra króna verður varið til verkefnisins í heildina.

 

------

 

Af talsvert öðrum toga er verkefnið Nordic Playlist, eða Norræni spilunarlistinn. Hér er á ferðinni verkefni sem tengist tónlist og hvernig við getum stutt við skapandi greinar, sem eru í mikilli sókn á Norðurlöndum. Hugsunin er að nota nútímatækni fjölmiðla, samfélagsmiðla og netmiðla til þess að koma norrænni popptónlist á framfæri jafnt innan Norðurlanda sem utan. Útflutningsskrifstofa norrænnar tónlistar, NOMEX sér um verkefnið sem var hleypt af stokkunum í byrjun árs og hefur þegar farið fram úr björtustu  vonum hvað varðar athygli, fylgi og heimsóknir á netinu meðal almennings. Á heimasíðu verkefnisins er hægt að kynna sér það nýjasta í popptónlist á Norðurlöndum, það sem er vinsælast hverju sinni, það sem áhrifafólk - tónlistarmenn - mæla með og það sem telja má að líklegt sé til vinsælda og eigi eftir að ná langt. Þeir sem standa að verkefninu hafa velt fyrir sér hvort hægt væri að nota samskonar hugmyndafræði og aðferðafræði til að kynna aðrar skapandi greinar, svo sem norrænar bókmenntir, kvikmyndir og sjónvarpsefni og að sjálfsögðu annað tónlistarefni en popptónlist. Ákveðið var að veita 2 milljónum króna til verkefnisins á þessu ári sem verður einkum varið til þess að kynna það vítt og breitt. Vonast er til að með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar geti þessi vefsíða orðið sjálfbær þegar stuðningnum lýkur að þessum þremur árum loknum.

------

 

Þriðja verkefnið, sem haldið er utan um í velferðarráðuneytinu, er hin svokallaða Norræna velferðarvakt sem byggir á íslensku velferðarvaktinni sem sett var á laggir fljótlega eftir bankahrunið 2008 og kreppuna sem við könnumst allt of vel við.  Í aðdraganda velferðarvaktarinnar, þegar stjórnvöld voru að velta fyrir sér hvernig ætti að bregðast við, var leitað til frænda okkar á Norðurlöndum og reynt að skoða hvað þeir hefðu nýtt - eins og til dæmis í Finnlandi. Þá var ákveðið að setja á stofn þessa velferðarvakt, þar sem eru stjórnvöld, ráðuneyti, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og þeir sem sinna velferðinni í samfélaginu. Þetta vakti töluverða athygli þannig að menn voru sammála í því að þarna væri ákveðið norrænt notagildi, norrænn virðisauki, sem alltaf er verið að leita eftir. Með Norrænu velferðarvaktinni er ætlunin að greina þau viðbrögð og félagslegar aðgerðir sem gripið hefur verið til í kjölfar fyrri krepputímabila á Norðurlöndum, sjá hvaða aðgerðir tókust vel, hvað tókst síður vel og hvaða afleiðingar það hafði að aðhafast ekkert ... eða kannski að aðhafast eitthvað. Hugsunin er að búa til velferðarvísa, sem er verið að vinna að hér á Íslandi fyrir Norðurlöndin. Ætlunin er að búa til gagnabanka þekkingar yfir hvað er að virka þegar tekist er á við kreppu og nýta velferðarkerfið til þess; en að sama skapi vonumst við til að þurfa ekki að nýta þessa þekkingu því ekki vil ég óska þess að nokkurt norrænt ríki þurfi að ganga í gegnum það sem við höfum gengið í gegnum. Yfirumsjón með verkefninu er í velferðarráðuneytinu en það verður unnið í samvinnu norrænna háskóla og rannsóknarsetra á því fagsviði sem um ræðir. Í ár verður 3 milljónum danskra króna varið til verkefnisins.

 

------

 

Svo að öðru sem er ekki jafnt skemmtilegt. Eins og mörgum hér er eflaust kunnugt um þá hefur Norræna ráðherranefndin rekið skrifstofur í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna frá árinu 1991 með mjög góðum árangri og skrifstofur með samskonar hlutverk voru síðar meir opnaðar í Pétursborg í Rússlandi árið 1995 og í Kaliningrad árið 2005. Var það mat manna að starfsemi þeirra hafi gengið afar vel.

 

Tilvist skrifstofanna í Rússlandi er byggð á sameiginlegri viljayfirlýsingu milli rússneskra stjórnvalda og Norrænu ráðherranefndarinnar og eru þær skilgreindar sem frjáls félagasamtök samkvæmt rússneskri löggjöf. Þessi staða hefur frá upphafi verið nokkurt áhyggjuefni fyrir Norrænu ráðherranefndina og hefur árum saman verið reynt að fá henni breytt þannig að skrifstofurnar fái diplómatíska stöðu. Þetta hefur ekki gengið eftir þrátt fyrir ádrátt rússneskra stjórnvalda þar um. Eftir að ný löggjöf tók gildi í Rússlandi, sem boðar hert eftirlit með frjálsum félagasamtökum í landinu, hefur ráðherranefndin fylgst vel með þróuninni og aukið kapp verið lagt á að reyna að breyta þessari lagalegu stöðu. Þó að rússnesk stjórnvöld hafi fullvissað ráðherranefndina um að áhyggjur þeirra vegna nýju löggjafarinnar væru ástæðulausar gerðist það svo á vormánuðum í fyrra að embætti saksóknara í Kaliningrad mætti í eftirlitsferð á skrifstofu ráðherranefndarinnar þar í borg þar sem var krafist afhendingar ýmissa gagna. Tilgangur heimsóknarinnar var víst að ganga úr skugga um að ekki væri um pólitíska starfsemi að ræða.

 

Norræna ráðherranefndin lítur málið mjög alvarlegum augum og telur að það sé nú komið í mjög neikvæðan farveg. Viðræður hafa átt sér stað milli rússneska utanríkisráðuneytisins og Norrænu ráðherranefndarinnar undanfarna mánuði og staðan er nú þannig að Rússar þvertaka fyrir að breyta stöðu skrifstofanna. Ráðherranefndin hefur ekki tekið ákvörðun um næstu skref en menn eru sammála um að í versta falli þyrfti  hreinlega að loka rússnesku skrifstofunum, sem ég tel að væri óheillavænleg þróun. Skrifstofurnar og það starf sem þær inna af hendi nýtur mikillar velvildar og stuðnings bæði almennings og borgaryfirvalda í Pétursborg og Kaliningrad og áherslan í starfi þeirra er einkum að greiða fyrir samstarfi norrænna og rússneskra félagasamtaka auk þess að efla margvíslegt annað samstarf milli rússneskra og norrænna borgara. Ég tel mjög mikilvægt að ráðherrar sjái sér fært að taka þetta mál upp þegar þeir eiga þess kost að hitta rússneska ráðamenn.

 

------

 

Ég vil líka nefna að tekin var ákvörðun um að leggja niður eina af elstu stofnunum norræns samstarfs, Norræna lýðheilsuháskólann í Gautaborg, sem endurspeglar það að norrænt samstarf er í stöðugri endurskoðun. Það er verið að hagræða í rekstrinum og það var mat ráðherranefndarinnar að ekki væri nauðsynlegt lengur að reka Norræna lýðheilsuháskólann þar sem nú er boðið upp á sambærilegt nám á vegum landanna. Tekin var ákvörðun um að leggja niður skólann á árinu 2014 og kemur það því í hlut Íslands að fylgja þeirri ákvörðun eftir. Verkefni sem skólinn hefur sinnt og tengjast rannsóknum og þekkingarmiðlun um lýðheilsu verða færð til Norræna velferðarsetursins og til NordForsk.

 

Leiðarljósið í norrænu samstarfi hefur alltaf verið grundvallarreglan um norrænt notagildi eða norrænan virðisauka – „nordisk nytta“ eins og þeir segja í Svíþjóð – þannig að ef við getum náð samlegðaráhrifum með því að vinna sameiginlega að mikilvægum samfélagsverkefnum þá á norrænt samstarf rétt á sér, annars ekki. Það held ég að hafi svo sannarlega átt við orðið um Norræna lýðheilsuháskólann, hann hafði gert sitt en nú væri kominn tími til að loka honum. Hins vegar eru þeir ráðherrar sem sitja í ráðherranefnd um heilbrigðis- og velferðarmál sannfærðir um mikilvægi þess að styrkja samstarfið. Ég hef nefnt sem dæmi að mér finnst mjög einkennilegt, sem ráðherra í velferðarráðuneytinu hér sem ráðstafar tæpum helming af fjárlögum ríkisins, að bera saman skiptingu fjárveitinga í Norrænu ráðherranefndinni þar sem um 4% fara í málefni sem snúa að heilbrigðis- og félagsmálum. Ég held það séu einmitt miklir möguleikar að finna þennan norræna virðisauka sem við tölum um í samstarfi á þessu sviði. 

 

Þá kem ég að skýrslu sem Svíinn Bo Könberg hefur verið að vinna að en hugsunin með henni er hvernig hægt sé að takast á við sívaxandi álag á velferðarkerfið, á heilbrigðiskerfið. Því er spáð að útgjöld til heilbrigðisþjónustu muni margfaldast á næstu áratugum og því skiptir miklu máli fyrir öll norrænu löndin að finna leiðir til að auka skilvirkni, færni og afkastagetu og stuðla að sem mestum gæðum heilbrigðisþjónustunnar. Það sem einkennir öll Norðurlöndin er að við erum með úrvals heilbrigðisþjónustu og að mörgu leyti mjög sambærileg heilbrigðiskerfi og ég held það séu mikil tækifæri hvað varðar að leita aukins samstarfs á þessu sviði. Ég vonast til þess að Bo Könberg muni koma með róttækar tillögur, muni koma með spennandi tillögur á þessu sviði. Við höfum nefnt samstarf á sviði lyfjamála og lyfjainnkaupa, samstarf um greiningu og meðhöndlun sjaldgæfra sjúkdóma, hvernig við getum samnýtt dýran sjúkrahúsbúnað og hvernig við getum auðveldað flæði milli landanna eftir þjónustu. Þetta held ég sé allt fyllilega í samræmi við þær áherslur sem hafa einkennt norrænt samstarf áratugum saman.

 

Norræn samvinna hefur skilað okkur Íslendingum mjög miklu. Við getum nefnt vegabréfasamstarf, sameiginlegan vinnumarkað, Norðurlandasamning um almannatryggingar, samkomulag um æðri menntun og yfirlýsingu um málstefnu Norðurlanda. Þetta eru áfangar sem samstarfið náði á upphafsárum sínum. Af nýrri áföngum má nefna umhverfismerkið Svaninn og næringarvottunina skráargatið. Þá má nefna sem mjög nýlegt dæmi frábært samstarf fjármálaráðherranna um samvinnu um upplýsingaskipti við skattaskjólsríki, þar sem sameiginlegir samningar við 40 ríki hafa skilað norrænu ríkjunum milljörðum í skatttekjur sem annars hefðu horfið í skattaskjól. Mér skilst að fjármálaráðherrar hafi ákveðið að setja þá litlu fjármuni sem þeir höfðu í þetta eina verkefni og það hefur gefið gífurlega ávöxtun og skipt miklu máli.

 

Norrænt samstarf stendur vel, það nýtur mikils stuðnings og velvildar og það má benda á að í danskri Gallup-könnun sem birtist nýlega kom fram að stuðningur við norrænt sambandsríki mældist 47% ef slíkt stæði til boða, á meðan stuðningur við ESB mældist 28%. Á sunnudag er Dagur Norðurlanda, en á þeim degi fyrir 52 árum komu fulltrúar ríkisstjórna Norðurlanda saman í þinghúsinu í Helsinki og undirrituðu sáttmála sem er ígildi stjórnarskrár norræns samstarfs og er í daglegu tali nefndur Helsinkisáttmálinn.  Öll þjóðríkin hafa breyst mikið frá því að sáttmálinn var undirritaður. Við höfum leitað eftir samstarfi með öðrum þjóðum en eftir sem áður stendur norrænt samstarf mjög sterkt, tilbúið til að aðlagast og takast á við áskoranir, tryggja að við náum fram okkar sameiginlegu hagsmunum og komum okkar norrænu áherslum sameiginlega til leiða. Það stendur svo sannarlega óbreytt og ég er sannfærð um að þetta samstarf á eftir að lifa mjög lengi - jafnvel okkur öll. 

                 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta