Hoppa yfir valmynd
23. mars 2014 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra staðfestir þátttöku í eftirlitssveit ÖSE við Deshchytsia

Gunnar Bragi og Andrii Deshchytsia

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir brýnt að tryggja frið í samskiptum Úkraínu og Rússlands og að sátt ríki um umbætur í Úkraínu en miklar og sársaukafullar endurbætur á efnahags- og stjórnkerfi landsins séu óumflýjanlegar. Í dag lauk heimsókn hans til höfuðborgar landsins, Kænugarðs þar sem hann átti fundi með ráðamönnum, fulltrúum frjálsra félagasamtaka og starfsmönnum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Þá kom hann á Sjálfstæðistorgið þar sem um 100 manns féllu í mótmælum í síðasta mánuði. Á fundi með Andrii Deshchytsia, starfandi utanríkisráðherra Úkraínu,  staðfesti Gunnar Bragi  að Ísland hygðist taka þátt í eftirlitsveit ÖSE í Úkraínu sem verið er að setja á laggirnar.

„Það var afar áhrifamikil upplifun að koma þar sem svo margir létu lífið  og að hitta mótmælendur, sem segjast munu hvergi fara, fyrr en þeir telja tryggt að breytingar verði til frambúðar. Það er ljóst að Úkraínumanna bíður risavaxið verkefni við að tryggja stöðugleika og takast á við gríðarlegan efnahagsvanda. Ég fékk ágæta mynd af stöðu mála og hvatti bæði stjórn og stjórnarandstöðu til að vinna að efnahagsumbótum, takast á við spillingu, tryggja mannréttindi, málfrelsi og réttindi minnihlutahópa,“ segir Gunnar Bragi.

Á fundi Gunnars Braga og Andrii Deshchytsia ræddu þeir ástandið á Krímskaga og mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið hjálpi Úkraínu að tryggja frið og öryggi í landinu. Þá ræddu þeir efnahagsmál, aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stöðu þjóðarbrota í landinu. Þakkaði Deshchytsia Íslendingum sérstaklega fyrir afdráttarlausan stuðning þeirra við Úkraínu. Hann sagði stuðning hverrar og einnar þjóðar mikilvægt lóð á vogarskálarnar til að tryggja frið og stuðla að þeirri uppbyggingu og endurbótum sem svo mikil þörf væri á. Deshchytsia, sem tók við embætti fyrir tæpum mánuði, var sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi 2008-2012. 

Fyrr um daginn fundaði utanríkisráðherra með þingmönnum Flokks héraðanna, Yuri Miroshnychenko og Serhiy Tihipko, starfandi seðlabankastjóra landsins, Stepan Kubiv, sem er fyrrverandi þingmaður Föðurlandsflokksins, fulltrúum frjálsra félagasamtaka sem berjast fyrir gagnsæi í stjórnsýslu og fyrir réttindum samkynhneigðra og yfirmanni fastaskrifstofu ÖSE í Kænugarði. „Samtöl mín í ferðinni staðfesta hvað staða Úkraínu er erfið. Það var gerð innrás í landið og hér eru miklar áhyggjur af því hver verði næstu áform Rússa. Þá voru viðmælendur mínir almennt sammála um að miklu skipti að tryggja stöðugleika, draga úr spillingu sem hafi veriðundirrót óánægju almennings sem byggi við bág kjör. Erfiðar og umfangsmiklar endurbætur á stjórnkerfi  og í efnahagsmálum væru óumflýjanlegar en til þeirra yrði að grípa til að koma á stöðugleika í landinu.

Fleiri myndir úr ferð Gunnars Braga til Úkraínu má finna á Facebook síðu ráðuneytisins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta