Hoppa yfir valmynd
26. mars 2014 Utanríkisráðuneytið

Lögreglustjórinn í Mangochi leitar til Íslands

Þórir Guðmundsson

Lögreglustjórinn í Mangochi í Malaví hefur undir sinni stjórn 207 lögreglumenn og fimm bíla. Í héraðinu býr ein milljón manna. Og nú var úr vöndu að ráða því einn bíllinn var með bilaða eldsneytisdælu og hafði legið ósnertur í bakgarði lögreglustöðvarinnar í átta mánuði. Gagnstætt stöðinni leigir Þróunarsamvinnustofnun Íslands hæð í skrifstofubyggingu og eitt sinn er lögreglustjórinn leit yfir götuna fékk hann hugmynd.

Ég var í fylgd Vilhjálms Wiium umdæmisstjóra ÞSSÍ í Malaví. Vettvangsferðin til Mangochi var liður í skýrslugerð um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslendinga. Við Villi vorum búnir að heimsækja skóla, heilsugæslustöðvar og vatnsból, sem Íslendingar hafa kostað ýmsar framkvæmdir við. Þegar við komum til baka á skrifstofuna í Mangochi lá þar brúnt umslag. Í því var bréf frá lögreglustjóranum.

Honum hafði þá dottið í hug að ÞSSÍ kynni hugsanlega að hafa afgangsfé sem hægt væri að nota til að kaupa eldsneytisdælu þá sem hafði valdið lögreglunni vandræðum síðastliðna átta mánuði. Villa fannst sjálfsagt að sýna lögreglustjóranum tilhlýðilega virðingu og eftir símhringingu starfsmanns yfir götuna var afráðin opinber heimsókn fulltrúa Íslands í lögreglustöðina síðdegis næsta dag.

Lögreglustjórinn reyndist mjósleginn, prúður og spjallgóður karl, snyrtilega klæddur, hægur í fasi og mildur í orði. Líkt og aðrir embættismenn í þessu fátæka Afríkuríki glímir hann við stöðugan fjárskort. Lögreglumenn fá launin sín frá höfuðstaðnum Lilongwe en fjárveitingar til reksturs eru skornar við nögl. Ekki er gert ráð fyrir að bensíndælur gefi sig. Og því situr Toyota HiLux pallbíllinn í bakgarðinum og grotnar niður.

Lögreglustjórinn veit sem er að gera þarf grein fyrir því hvernig nýta eigi framlög sem sótt er um og því útskýrði hann að hann hefði í huga að afhenda rannsóknardeild lögreglunnar bílinn til afnota. Hún hefur engan bíl núna. Við Villi vorum of kurteisir til að spyrja nánar út í það hvernig rannsóknarlögreglan færi að því rannsaka glæpi án farartækis til að komast á vettvang.

Villi féllst á taka beiðnina til skoðunar enda kæmi brátt í ljós hvort einhver afgangur yrði af verkefnafé. Lögreglustjórinn sagði að nígerískur kaupmaður hefði boðist til að útvega dæluna á sem svarar 300.000 krónur. Rétt þótti þó kanna það nánar.

Þegar við höfðum skoðað bílinn í bakgarðinum og bjuggumst til brottfarar spurði lögreglustjórinn hvort við hefðum ekki áhuga á sjá fangelsið. Á lögreglustöðinni eru tveir fangaklefar. Í dimmum klefa, sem var um tveir og hálfur metri á breidd og fjórir til fimm á lengd, sátu fimmtán niðurlútir menn á steingólfinu.

-Við höldum þeim hér í allt að 48 klukkustundir en þá þurfum við leiða þá fyrir dómara, sagði lögreglustjórinn. Ekki kom fram hvað mennirnir hefðu til sakar unnið.

Í kvennaklefanum sat ein kona á dýnu. Þegar lögreglustjórinn leit inn til hennar hóf konan að útskýra í löngu máli aðdraganda þess að hún væri í fangelsi. Eftir lesturinn leit lögreglustjórinn til okkar og sagði kíminn: Hún segist ekki hafa gert það.

Við Villi kvöddum lögreglustjórann með virktum í andyri niðurníddrar lögreglustöðvarinnar. -Okkur vantar þriðja klefann fyrir unga afbrotamenn, sagði lögreglustjórinn. Það er ekki verjandi að setja þá inn í karlaklefann svo við höfum þá venjulega bara með okkur hérna við afgreiðsluna. Við þurftum ekki annað en líta upp í loftið, þar sem við blöstu brotnar þakplötur og almenn niðurníðsla, til að gera okkur grein fyrir því ýmislegt skorti upp á aðstöðu laganna varða.

Villi lofaði að skoða beiðnina um eldsneytisdæluna vel og vandlega. Vinsamlegu sambandi hafði verið komið á milli lögreglunnar í Mangochi og fulltrúa Íslands á staðnum. Ef lögreglustjórinn fær dæluna frá Villa er ljóst að fjölga mun í hópi Íslandsvina um einn. 

Þórir Guðmundsson er ráðgjafi utanríkisráðuneytisins um alþjóðlega þróunarsamvinnu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta