Óskað eftir ábendingum vegna mótunar laga um skipulag hafs og stranda
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kallar eftir skoðunum og ábendingum frá almenningi og hagsmunaaðilum vegna mótun löggjafar um skipulag hafs og strandar. Löggjöfin verður sú fyrsta sem tekur til skipulagsmála á hafi og ströndum á Íslandi.
Á árinu 2013 hófst í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu undirbúningur að mótun löggjafar um skipulag hafs og stranda. Í því skyni fól ráðuneytið Skipulagsstofnun gerð greinargerðar um stöðu þessara mála á Íslandi og löggjöfina í Evrópusambandinu og nágrannalöndum. Skipulagsstofnun skilaði ráðuneytinu umbeðinni greinargerð í febrúar sl. Fyrirhugað er nú að hefja vinnu við mótun löggjafar um skipulag hafs og stranda í samvinnu við viðkomandi ráðuneyti, sveitarfélög, helstu stofnanir og hagsmunaaðila.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hvetur alla þá sem hafa áhuga og þekkingu á þessu mikilvæga málefni að senda ráðuneytinu ábendingar sem gætu nýst í fyrirhugaðri vinnu við mótun löggjafar á sviðinu. Hægt er að senda ábendingar til 10. apríl nk. á netfangið [email protected] eða með bréfpósti á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.
Greinargerð Skipulagsstofnunar um skipulag haf- og strandsvæða.