Hoppa yfir valmynd
31. mars 2014 Dómsmálaráðuneytið

Heimilt að birta úrskurði í málefnum útlendinga

Vegna umfjöllunar í Fréttablaðinu í dag um birtingu úrskurða um málefni útlendinga vill innanríkisráðuneytið taka eftirfarandi fram:

Stjórnvöld hafa á grundvelli upplýsingalaga fulla heimild til þess að eigin frumkvæði að birta upplýsingar sem það hefur undir höndum, svo sem úrskurði sem upp hafa verið kveðnir, svo lengi sem þar er ekki að finna upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari og að öðru leyti gætt að lagaákvæðum er varða persónuvernd.

Innanríkisráðuneytið hóf í síðasta mánuði birtingu úrskurða í útlendingamálum og tilkynnti um þá ákvörðun á vef ráðuneytisins 20. febrúar síðastliðinn. Með hliðsjón af framkvæmd í nágrannalöndum og að höfðu samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna var ákveðið að birta úrskurðina  á vefnum www.urskurdir.is. Þar er einnig að finna úrskurði annarra ráðuneyta og kærunefnda svo og dóma Félagsdóms.

Við birtingu úrskurða ráðuneytisins er að fullu tekið tillit til persónuverndar einstaklinga. Í úrskurðum innanríkisráðuneytisins sem birtir hafa verið eru tekin út nöfn einstaklinga, ríkisborgararéttur þeirra eða þjóðerni, landaheiti, viðkvæmar upplýsingar, svo sem heilsufars- og fjárhagsupplýsingar sem og aðrar upplýsingar sem á einhvern hátt geta tengt einstaklinga við úrskurðinn.

Úrskurðir sem birtir hafa verið varða dvalarleyfi og vegabréfsáritanir. Úrskurðir í hælismálum hafa ekki verið birtir. Þar er oft um mjög viðkvæmar upplýsingar að ræða og eru þeir því ólíkir úrskurðum er varða dvalarleyfi og vegabréfsáritanir. Hvernig staðið verður að birtingu úrskurða í hælismálum er til skoðunar hjá Persónuvernd.

Ráðuneytið ítrekar að með birtingu úrskurða er leitast við að styrkja réttaröryggi og fyrirsjáanleika í beitingu regluverksins og stuðla að bættri málsmeðferð í málefnum útlendinga hér á landi að fullu tilliti teknu til sjónarmiða er varða persónuvernd einstaklinga og verður það haft til hliðsjónar við framkvæmd alla.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta