Hoppa yfir valmynd
31. mars 2014 Utanríkisráðuneytið

Krím og landkynningar

Hreinn Pálsson
Hreinn Pálsson

Vikan 15.- 22. mars í Moskvu 

Við höfumst ýmislegt að í sendiráðunum, sérstaklega af því að við sem þar störfum sinnum oft mörgum hlutverkum í einu. Þessa vikuna var búist við að verkefnin yrðu sérstaklega ánægjuleg, landkynningarátak og fundir til að koma íslenskum matvælum í sölu hjá rússneskri verslunarkeðju.  

Vikan byrjaði á laugardegi á því að við sóttum kokk sem kom til okkar frá Íslandi, Friðrik Sigurðsson, út á flugvöll. Þar stendur hann klyfjaður fjórum ferðatöskum fullum af íslenskum matvælum. Rússneskir tollverðir eru alveg gapandi yfir auknum umsvifum í póstflutningum íslenska sendiráðsins og dularfullum pökkum. Ísskápar starfsmanna og kælibox öll fyllt og mikil eftirvænting eftir að fá að smakka góðgætið að heiman. Þetta er þó eins og á jólunum þegar pakkarnir eru komnir undir tréð – það má ekki opna fyrr en gestirnir eru komnir og biðin er löng.

Heimspólitíkin er þó ekki langt undan á sunnudeginum, niðurstaða kosninga um hvort Krím skuli gerast hluti af Rússlandi liggur fyrir með 97% stuðningi við tillöguna samkvæmt opinberum tölum. Við fylgjumst með fréttaveitum og viðbrögðum rússneskra stjórnvalda og niðurstaðan kemur engum hér á óvart.

Mánudagurinn gengur í garð og undirbúningur undir viðburð kvöldsins hefur verið á fullu í dag. Von er á um 90 fulltrúum frá rússneskum ferðaskrifstofum í sendiherrabústaðinn klukkan 18 þar sem kynna á fyrir þeim starfsemi flugfélagsins Icelandair og beint flug þess til Pétursborgar.  Krím er um og yfir og allt í kring. Áfram er rýnt í rússnesku dagblöðin og yfirlýsingar stjórnvalda skoðaðar  til að reyna að greina stöðuna og senda upplýsingar til stjórnvalda heima. Fréttir dagsins koma frá Brussel og Washington; þvingunaraðgerðir á Rússland vegna aðgerðanna á Krímskaga.

Þriðjudagur og forstjórar stórrar verslunarkeðju og matvæladreifingaraðila eru komnir í hádegisverð til okkar. Nú eru engir sviðakjammar í boði, eins og þeir geta nú verið góðir, aðeins fyrsta flokks lambakjöt og fiskur sem við ætlum að reyna að fá þá til að selja.  Sölulínan að heiman er einföld: „Við erum ekki í vandræðum með að selja þessar vörur, við erum að leita að góðum kaupendum og góðu verði fyrir hágæða vörur.“ Kynning á vörunum gengur vel og maturinn sjálfur fer  vel í forstjórana. Á sama tíma flytur forseti Rússlands ræðu niðri í Kreml, lýsing sumra á henni er að nú sé skollið á nýtt kalt stríð. Okkar greining er ekki jafn dramatísk, en orðfærið er mjög afgerandi og Krím mun verða hluti af Rússlandi, löggjöf þess efnis mun taka gildi á næstu dögum.  

Miðvikudagur rennur upp og milli þess sem teknar eru saman upplýsingar fyrir stjórnvöld heima er starfsfólk sendiráðsins að aðstoða Íslandsstofu við að opna bás á ferðakaupstefnunni MITT.  Kaupstefnan er sú stærsta sinnar tegundar í Rússlandi með tugi þúsunda gesta og Rússland er spennandi markaður fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki. Á síðasta ári fjölgaði ferðamönnum frá Rússlandi til Íslands um 48% og rannsóknir sýna að rússneskir  ferðamenn skilja eftir sig mestan gjaldeyri á mann.

Fimmtudagur og okkar bíða 28 umsóknir Rússa um vegabréfsáritun til Íslands. Mikilvægt er að skoða öll gögn vel svo óæskilegir einstaklingar fái ekki heimild til að ferðast til Íslands.  Samkvæmt tölum frá Schengen-ríkjunum eru 99% þeirra sem sækja um áritun auðfúsugestir sem við viljum bjóða velkomna en 1% eru einstaklingar sem sigla undir fölsku flaggi. Galdurinn er að skoða alla vel en veita á sama tíma greiða og góða þjónustu.  Við fylgjumst með og sendum upplýsingar heim um að stjórnsýsluréttur hafi gefið grænt ljós á inngöngu Krímar í sambandsríkið Rússland og mikið er talað um þvingunaraðgerðir á báða bóga í rússnesku fjölmiðlunum.

Rússneska þingið samþykkti inngöngu Krímar og Sevastapol í sambandsríkið Rússland seint á fimmtudegi. Við hittum forstöðumenn allra norrænu og baltnesku sendiráðanna í Moskvu í hádeginu á föstudegi og förum yfir málin, margir þeirra eru sérfræðingar í málefnum Rússlands og þeirra innsýn okkur því mjög gagnleg. Í vikulokin förum við svo þrír, ég, Friðrik kokkur og Haukur Hauksson, á fund nemenda við norrænu miðstöðina í Moskvu. Við bjóðum þeim að smakka íslenskan mat og ræðum við þá um Ísland, sögu, stjórnmál og daglegt líf. Mikill áhugi og skemmtilegar spurningar frá forvitnum hópi, engar spurningar um Krím þó að við höfum verið undir það búnir. Almennt eru Rússar fylgjandi aðgerðunum á Krímskaga og skoðanakannanir síðustu daga hafa sýnt aukningu í fylgi við Pútín forseta. 

Við kveðjum Friðrik snemma á laugardegi og þá hefst lestur ógrynni greina sem koma úr ýmsum áttum þessa dagana um Rússland og ástandið. Fylgjumst einnig með heimsókn utanríkisráðherra og góðra félaga úr ráðuneytinu heima til Kiev til að leggja mat á ástandið þar. Í þessu öllu er margt undir; friður í álfunni, orka frá Rússlandi, pólitísk samskipti um sameiginleg hagsmunamál og gagnkvæmir viðskiptahagsmunir.  

Ný vinnuvika hefst á sunnudeginum með undirbúningi fyrir verkefni vikunnar, m.a. eftirfylgni eftir ferðakaupstefnur, Schengen-samstarf, norrænt menningarsamstarf í Rússlandi, norðurslóðir, fiskveiðar  og svo eru málefni tengd Krím langt frá því að vera til lykta leidd.


Hreinn Pálsson er sendiráðunautur í Moskvu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta