Úkraína og Rússland efst á baugi á utanríkisráðherrafundi NATO
Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu stöðu öryggismála í Evrópu og á Norður-Atlantshafssvæðinu á fundum sínum í Brussel í dag. Ráðherrarnir áréttuðu fordæmingu sína á aðgerðum Rússa og ólögmætri innlimun Krímskaga. Ennfremur veldur viðbúnaður og liðsafli Rússa við landamæri Úkraínu áhyggjum bandalagsríkja og hefur loftrýmisgæsla á vegum Atlantshafsbandalagsins í Eystrasaltsríkjunum verið efld.
„Við ræddum þá alvarlegu stöðu sem hernaðaraðgerðir Rússa og innlimun Krímskaga skapar fyrir öryggi Evrópu”, sagði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. „Á fundinum fórum við yfir aðgerðir sem ætlað er að styðja við Úkraínu og önnur samstarfsríki okkar í Austur-Evrópu. Á vettvangi Atlandshafsbandalagsins þarf að endurhugsa samskiptin við Rússland og það verður skoðunarefni þar næstu vikurnar.“
Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins funduðu einnig með Andrii Deshchytsia starfandi utanríkisráðherra í NATO-Úkraínunefndinni. Bandalagsríkin hétu því halda áfram að vinna með stjórnvöldum í Úkraínu að pólitískri og friðsamlegri lausn sem tæki mið af alþjóðalögum og alþjóðlega viðurkenndum landmærum landsins.
Þá var þess sérstaklega minnst á fundi utanríkisráðherranna að tólf ríki hafa gerst aðildarríki að bandalaginu á síðustu 15 árum.
Yfirlýsing utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins
Yfirlýsing NATO-Úkraínunefndarinnar
Yfirlýsing í tilefni af stækkunarafmæli Atlantshafsbandalagsins