Þjóðfundur ungra Norðurlandabúa
Þjóðfundur unga fólksins var haldinn 5. apríl sl. þar sem um 100 ungmenni frá Norðurlöndunum komu saman og ræddu um hvernig þau myndu vilja sjá framtíð sína. Fundurinn var eitt af verkefnum Íslands, sem gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári og stóð Nordbuk, barna og ungmennanefndin fyrir fundinum.
Notast var við sömu fundaraðferð og beitt var á Þjóðfundinum 2009 og gafst öllum fundarmönnum tækifæri til koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þátttakendurnir unnu saman að því að ákveða umræðuflokka, þ.e. mynda málaflokkana, komu sér saman um markmið og leiðir til þess að vinna enn frekar að þeim.
„Með þessum fundi gafst okkur í norrænu samstarfi einstakt tækifæri til að horfa til framtíðar með ungu fólki og gefa þeim orðið. Fyrstu niðurstöður fundarins eru mjög áhugaverðar og veitir dýrmæta innsýn inn í framtíðarsýn ungs fólks“ sagði Valgerður Þórunn Bjarnadóttir formaður Nordbuk.
Unnið verður úr niðurstöðunum enn frekar og þær kynntar á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og víðar.