Endurbætur á mannréttindakerfi SÞ samþykktar
Ályktun um endurbætur á mannréttindakerfi Sameinuðu þjóðanna var samþykkt af allsherjarþingi SÞ í dag. Ályktunin er afrakstur tveggja ára samningaviðræðna sem fastafulltrúar Íslands og Túnis leiddu og felur í sér allverulega styrkingu á mannréttindakerfinu sem nú hefur ekki undan að sinna þeim skýrslum sem aðildarríkin skila á grundvelli mannréttindasamninga sem þau eru aðilar að.
Samkvæmt ályktuninni verður alls um 20 vinnuvikum bætt við starf nefndanna sem er 30% aukning. Stuðningur við þróunarríki til að standa skil á skýrslum verður stóraukinn og rekstrarkostnaður mannréttindanefndanna minnkaður um allt að 45% á viku. Í heildina verður um 2.4 milljarða króna sparnaður í rekstri kerfisins sem verður nýttur til að auka getu nefndanna til að taka við fleiri skýrslum frá aðildarríkjunum og styrkja þannig eftirfylgni og framkvæmd mannréttindasamninganna og stuðla að bættum mannréttindum um allan heim.
Nefndirnar sem um ræðir starfa á grundvelli samningsins um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi, samningsins um efnahagsleg- félagsleg- og menningarleg réttindi, samningsins um afnám alls kynþáttamisréttis, samningsins um afnám alls misréttis gegn konum, samningsins gegn pyntingum, samningsins um mannshvörf, samningsins um réttindi fatlaðs fólks, samningsins um réttindi farandverkafólks og loks barnasáttmálans.
Fastafulltrúar Íslands og Túnis, þau Gréta Gunnarsdóttir og Mohamed Khaled Khiari, leiddu viðræðurnar samkvæmt umboði frá forseta allsherjarþingsins.