Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2014 Utanríkisráðuneytið

Næstum dauður tvisvar, fyrri hluti

Stefán Lárus Stefánsson
Stefán Lárus Stefánsson

Ég veit að byrjunin á þessari frásögn verður ósköp þurr og látlaus, það er svo sem ekki með vilja gert. Það virðist ekki skipta máli hversu mörg ár líða frá þessum atburðum, ég hef engin orð fundið sem ná að lýsa, með nægilega greinagóðum hætti, því sem ég upplifði, að því er virtist í fyrstu, á ósköp venjulegum föstudegi í sendiráðinu í Tokyo.

Tokyo, höfuðborgin risavaxna, með sína rúmlega 30 milljón íbúa, er staðsett á stærstu eyjunni í Japan, Honshu, til austurs er Kyrrahafið. Land hinnar rísandi sólar er bæði heillandi og sérstakt í senn. Þau ár sem ég hafði búið með fjölskyldunni í sendiráði Íslands höfðum við fundið fyrir mýgrút jarðskjálfta, oft mörgum á viku og ég hélt að ég væri farin að venjast jarðskjálftunum, ef svo má að orði komast um jafn ógnvekjandi náttúrufyrirbæri.

Dagurinn sem hér um ræðir er 11. mars 2011, klukkan að verða þrjú í eftirmiðdaginn, veðrið svalt en þokkalegt og helgin framundan. Þar sem Guðrún og strákarnir voru á Íslandi þá hverfðist hugsunin hjá mér eins og venjulega um þetta leyti dags hvort ég ætti að fá mér Ramen núðlusúpu eða hamborgara í kvöldmat. Vikan sem þá var að líða hafði að vísu verið nokkuð óvenjuleg vegna fjölda jarðskjálfta sem riðið höfðu yfir nánast alla dagana, sá stærsti miðvikudeginum á undan var um 7.0 á Richter. Það var hrollvekjandi að upplifa jarðskjálfta af þessari stærðargráðu sem og alla eftirskjálftana þó maður teldi sig orðin sjóaðan. Vísindamenn á Íslandi telja að stærðin 7,0 sé hámark jarðskjálfta hér vegna þess að jarðskorpan á Íslandi er of ung til að þola þá spennu sem þarf til að byggja upp fyrir sterkari skjálfta.

Sendiráðið er í þriggja hæða múrsteinsklæddu stálgrindarhúsi, sendiráðsskrifstofurnar á jarðhæð, íbúðin okkar á þriðju hæð og kjallarinn leigður til fyrirtækja sem tengjast Íslandsviðskiptum. Ég var, þegar þarna var komið við sögu, á mínum kontór og gengt mér hinum megin við ganginn var Akiko Hasegawa, viðskiptafulltrúi sendiráðsins. Allt gekk sinn vanagang, allt var eins og það átti að vera. Raddkliður barst frákaffistofunni okkar sem ég hafði lánað undir viðskiptafund hjá fyrirtæki í kjallaranum. Já, bara ósköp venjulegur föstudagur í sendiráðinu, eða eins og sagt er á ensku: „Just another day at the office“, en ó, aldeilis ekki maður, ekki föstudagurinn 11. mars 2011.

Um það bil 72 kílómetra út frá ströndum Honshu eyju, um 32 kílómetra undir sjávarmáli losnaði í einu vetfangi um aldagamla spennu í berginu á hafsbotni og ógnarstór Kyrrahafsflekinn svokallaði, fór á skrið og ruddist með ómælanlegum krafti heila 24 metra undir Evrópu –Asíuflekann sem Japan stendur á. Kyrrahafsflekinn hafði haldist nokkurn vegin í sömu skorðum í mörg hundruð ár.

Þegar þetta átti sér stað var klukkan nákvæmlega 14:46.

Rétt í þann mund var eins og kaldur gustur léki um skrifstofuna mína í sendiráðinu í Tokyo og ég byrjaði að finna fyrir vægum titringi. Ég skynjaði strax að hann væri undanfari jarðskjálfta. Nú var bara að bíða og sjá hversu stór hann yrði, eins og vanalega. En þetta varð ekki eins og vanalega.

Titringurinn breyttist í skjálfta, skjálftinn breyttist í harkalegan hristing, en jæja, nú hlyti þessu að fara að ljúka, eins og vanalega. Þessi jarðskjálfti lét óskhyggju eins lítils karls sig engu varða og greip strax um íslenska sendiráðið og var ekkert að sleppa takinu. Hann lét sér ekki nægja eins og aðrir bræður hans sem ég hafði kynnst persónulega, að smjúga í gegnum húsið og láta sig hverfa. Við aðstæður sem þessar er maður bara aleinn í heiminum með jarðskjálftanum sínum.

Tíminn hvarf eins og dögg fyrir sólu og sífellt færðist harkan í aukanna, þetta var þegar orðinn stærsti jarðskjálfti sem ég hafði upplifað. Ég leit út um gluggann og sá hvar smáfugla- og hrafnager tvístraðist í allar áttir á brjálæðislegum flótta undan skerandi hávaða sem fuglarnir einir heyrðu, járnbentu skrifstofuháhýsin handan Shinagawa járnbrautastöðvarinnar liðuðust um á óskiljanlegan hátt eins og snákar, maður horfði á þau dáleiddur og beið þess eins að þau hryndu til grunna. Steinsteyptir rafmagnsstaurar rétt fyrir utan gluggann minn, alþaktir rafmagnsvírum, hristust og skulfu. Ég vissi að ef þeir myndu gefa sig og gasleiðslur í jörðu bresta myndu eldar kvikna um gervalla Tokyoborg.

Jarðskjálfta krumlan herti takið á sendiráðinu og maður heyrði og skynjaði að þriðja hæðin var farin að hristast óþyrmilega til en brothlóð, brauk og braml þaðan skar mann í eyru. Öskur dauðskelkaðs fólks heyrðist vítt og breytt um húsið og starfsfólk leigjenda í húsinu gerði eins og góð japönsk þjálfun kennir, að þar sem ekki eru laus gerviloft eða traust borð, að safnast saman í dyragættum og halda utan um hvort annað.

Á þessari stundu gerði ég mér eiginlega fyrst grein fyrir þeirri staðreynd að ég væri í alvarlegri lífshættu og ég væri að öllum líkindum að horfa fram á mitt síðasta.

Allt sem mér hafði verið sagt um viðbrögð í jarðskjálfta flaug í gegnum hugann. Ég ætlaði svo sannarlega ekki að hlaupa út á götu í burtu frá sendiráðinu, það er engin til björgunar í miðjum hamförum. Okkur hjónunum hafði verið kennt á jarðskjálftaæfingu að skríða undir borð, ég leit í kringum mig, allt hristist og skalf. Starfsfólk leigjandans stóð, sumt grátandi, í gættinni hjá mér, ég færi sko ekki að stinga mér undir skrifborðið fyrir framan það. Hvað átti skrifborðið svo sem að gera? Halda heilu húsi frá hausnum á mér ef allt færi á versta veg? Ef ég yrði einhvern tímann grafinn upp þá vildi ég ekki láta finna mig eins og gamla tyggjóklessu undir borðplötunni. Það eina sem komst að hjá mér þegar þarna var komið við sögu var að sitja sem fastast og fylgja þessum jarðskjálfta alla leið, ég myndi aldrei upplifa svona aftur, ef ég þá lifði þetta af það er að segja, svo gáfulega sem það hljómar.

Ég sat sem fastast og hristist með húsinu, hlustaði á braukið, bramlið og brothljóðin, öskrin í fólkinu og smám saman fjöruðu lætin út. Undir lokin var glamrið í skólp pípunum eitt eftir, sem fjaraði svo einnig út og eftir sat óþægileg hella fyrir eyrum.

Síðan datt allt í dúnalogn, um stund.

Jarðskjálftinn varði í um sex mínútur.

Þessi jarðskjálfti var 9.0 að styrkleika, sá stærsti sem skollið hefur á Japan og sá fjórði stærsti í heiminum síðan skráningar hófust.

Kyrrahafsflekinn kastaði Honshu eyju, sem er rúmlega 225,000 km2 að stærð, um 2.4 metra í austurátt (Ísland er um 103,000 km2).

Jarðskjálftinn skekkti möttul jarðar og stytti sólarhringinn um eina míkrósekúndu.


Stefán Lárus Stefánsson, sendiherra

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta