Samið við Mannréttindastofnun HÍ um rafræna útgáfu á dómareifunum
Innanríkisráðuneytið hefur samið við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands um styrk til rafrænnar útgáfu á dómareifunum Mannréttindadómstóls Evrópu. Undir samninginn skrifuðu í dag þær Oddný Mjöll Arnardóttir, fyrir hönd Mannréttindastofnunar, og Ragnhildur Hjaltadóttir, fyrir hönd innanríkisráðuneytisins.
Með samningnum er markaður rammi um fjárframlög ráðuneytisins til MHÍ vegna reifana dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og birtingar þeirra til ársins 2018. Samstarf ráðuneytisins og MHÍ um verkefnið hófst árið 2005 og hefur verið óslitið síðan en aðeins verið fjármagnað til árs í senn. Með samningnum er komið á langtíma fyrirkomulagi sem skapar starfseminni betri grundvöll.
Birtar eru reifanir valinna dóma Mannréttindadómstólsins sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir íslenskan rétt. Einnig skal birta í heild sinni íslenska þýðingu á ákvörðunum og dómum í kærumálum gegn íslenska ríkinu. Á þessu ári greiðir innanríkisráðuneytið 800 þúsund krónur til verkefnisins og síðan árlega sömu upphæð til og með ársins 2018 í samræmi við fjárlög hvers árs.
Útgáfan verður rafræn eins og hefur verið síðasta ár og áhersla verður lögð á að dreifing verði með sem víðtækustum hætti. Er það í samræmi við skyldur ríkisins sem leiða má af aðild að Mannréttindasáttmálanum og hafa verið staðfestar í yfirlýsingum ráðherrafunda dómsmálaráðherra Evrópuráðsins, nú síðast í Brighton yfirlýsingunni frá 2012. Nýmæli í samningnum er að stofnuninni er gert að upplýsa Mannréttindadómstólinn um reifanirnar og heimila birtingu þeirra á vef dómstólsins.