Markmiðið er útrýming fátæktar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti í gær yfirlýsingu fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á fundi þróunarnefndar Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington. Nefndin sinnir pólitískri stefnumörkun og hefur víðtæk áhrif á stefnumótun í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.
Í ræðu sinni lagði Gunnar Bragi áherslu á þrjá þætti í áframhaldandi starfi bankans svo hann nái markmiðum sínum um útrýmingu fátæktar. Allir eigi hlutdeild í hagvexti, sjálfbær nýting náttúruauðlinda og jafnrétti kynjanna séu lykilatriði í að ná árangri.
Á fundinum var rætt um framvæmd nýrrar stefnu Alþjóðabankans, hvernig bankinn geti betur brugðist við fyrirliggjandi áskorunum, styrkt hagvöxt og jafnræði í þróunarríkjum, ekki síst í kjölfar efnahagserfiðleika undanfarinna sex ára.
Í upphafi fundar sagði Jim Kim, forseti Alþjóðabankans, að efnhagslegar þrengingar og minnkandi hagvöxtur heimsins hafi sett sitt mark á starf bankans og þá hafi snjallsímar breytt væntingum fólks í þróunarríkjum um lífskjör enda sjái það betur og betur hvernig fólk lifir annars staðar í heiminum.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fjallaði um atvinnuleysi í Evrópusambandslöndunum og að nýmarkaðssvæði haldi áfram að vera uppruni hagvaxtar. Sjóðurinn myndi leggja áherslu á umhverfismál og stuðla að minni stéttaskiptingu í sínu starfi.