Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2014 Utanríkisráðuneytið

Norrænir menn í Kænugarði

Gunnar Pálsson á úlfalda
Gunnar Pálsson

Sjónir beinast nú að harðnandi pólitískum átökum í Úkraínu og hefur ástand mála kallað á viðveru alþjóðlegra eftirlitssveita í landinu m.a. með þátttöku Íslands. Ekki er úr vegi að rifja upp að nokkuð löng hefð er fyrir því að norrænir menn taki þátt í eftirlitssveitum í Kænugarði. 

Vatnsdælinguir nokkur, Þorvaldur Konráðsson, stundaði þar að auki kristniboð á bökkum Nepur, en hann er grafinn í Pallteskju, sem nú er hluti af Litháen.  Einnig er vert að minnast þess að Ólafur konungur Tryggvason, sem kristnaði bæði Noreg og Ísland, ólst upp til tvítugs innan borgarveggjanna í Kænugarði. Tengslin á milli Norðurlanda og  Kænugarðs standa djúpum rótum. Víkingar lögðu grunninn að borgarvirkinu og voru samskipti við norræn ríki tíð fram eftir miðöldum. Í mörg hundruð ár skipuðu t.a.m. norrænir menn lífvörð furstanna í Kænugarði.

Í Kristni sögu er hermt að Þorvaldur Konráðsson víðförli og Stefnir Þorgilsson hafi boðað kristni í Kænugarði og að Þorvaldur hafi andast  skammt frá borginni Pallteksju (Polotsk), á bökkum árinnar Dvínu í Vestur-Rússlandi. Þorvaldur var frá Stóru-Giljá í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Hann hafði verið túlkur Friðriks trúboðsbiskups frá Þýskalandi, þegar hann reyndi að kristna Íslendinga um tuttugu árum áður en hinn nýi siður var tekinn upp í landinu.

Ef marka má Þorvalds þátt víðförla sættu þeir Friðrik „brigsli og meingerðum“ heiðinna manna fyrir ergi og var ort um þá níðkvæði. Þoldi Þorvaldur það illa og drap þá sem þannig höfðu ort. Yfirgáfu tvímenningarnir loks Ísland og héldu fyrst um sinn til Noregs, þar sem Þorvaldur drap gestkomandi Íslending. Skildust leiðir er Friðrik sagði þá við Þorvald: „Fyrir þetta víg skulum við skilja því að þú vilt seint láta af manndrápum.“

Í Heimskringlu Snorra Sturlusonar segir frá fjórum Noregskonungum sem tengdust Kænugarði (Kiev-Rúzia) og svæðinu sem nú er kallað Úkraína:

Ólafur Tryggvason, sem kristnaði Ísland árið 1000, óx upp í Kænugarði.  Líkur benda til þess að dvölin á bökkum Nepur hafi haft mikil áhrif á konunginn í æsku, en hann reyndi síðar að efla norska konungdæmið eftir fyrirmynd frá Kænugarði og innleiða kristindóm sem einn af burðarstólpum norska ríkisins.

Snorri Sturluson lýsir því í Heimskringlu, hvernig Gunnhildur, ekkja Eiríks blóðaxar, ofsótti móður Ólafs, Ástríði, eftir að hún hafði fætt hann. Flýðu mæðginin á endanum frá Noregi yfir Eystrasalt, í leit að bróður Ástríðar, sem gerst hafði hirðmaður Valdemars í Hólmgarði (Novogorod).  Ólst konungsefnið upp í návígi við hirð Valdemars, en líkur benda til að hann hafi yfirgefið Kænugarð um tvítugsaldurinn og komið til Noregs árið 995.

Frá Kænugarði

Um fimmtán árum eftir að kristni var lögtekin á Íslandi, gekk Ólafur Haraldsson til ríkis í Noregi. Hann var kallaður Ólafur digri, en hlaut síðar  viðurnefnið „helgi“. Ólafur helgi reyndist ekki mannasættir og komu Þrændur því til leiðar í samstarfi við danska konungsveldið að hann var hrakinn af landi brott árið 1028. Tók hann þegar stefnuna á Kænugarð, en þar réði þá ríkjum Jarizleifur hinn spaki, ásamt sænskri drottningu sinni, Ingigerði Ólafsdóttur frá Sigtúni. Ólafur snéri aftur til Noregs þar sem hann féll í Stiklastaðaorrustu 1030. Hann hafði hins vegar skilið son sinn, Magnús, eftir í fóstri hjá Jarizleifi og Ingigerði, en Magnús hafði verið fimm ára við komuna til Kænugarðs.

Það var Ólafur helgi sem sendi Þórarinn Nefjólfsson til Íslands með skilaboð þess efnis að hann vildi verða konungur yfir Íslandi og einnig eignast Grímsey. Í staðinn bauð hann að  gefa Íslendingum af sínum löndum í Noregi. Þórarinn bar erindið upp á Alþingi og taldi mesti höfðingi Eyfirðinga, Guðmundur á Möðruvöllum, vináttu  konungs meira virði en Grímsey. Bróðir Guðmundar, Einar Þveræingur, taldi þingmönnum hins vegar hughvarf og sagði:  „Og mun ánauð sú aldrei ganga eða hverfa af þessu landi.  En þótt konungur sjá sé góður maður, sem ég trúi vel að sé, þá mun það fara héðan frá sem hingað til, þá er konungaskipti verður, að þeir eru ójafnir, sumir góðir, en sumir illir….“

Nokkrum árum eftir fall Ólafs, gerðu höfðingjar í Þrándheimi undir forystu Einars Þambarskelfis út leiðangur til Kænugarðs 1035 og vildu taka Magnús Ólafsson til konungs. Áður en konungsefnið hleypti heimdraganum, tóku Jarizleifur og Ingigerður eið af Þrændum þess efnis að honum yrði þyrmt við sömu örlögum og faðir hans hafði beðið við Stiklastað. Magnús góði, eins og hann var síðar kallaður, var einvaldur í Noregi í nokkur ár, þar til hálfbróðir Ólafs helga, Haraldur Sigurðsson, skaut upp kollinum,  og stýrði með honum ríki í eitt ár.

Magnús góði lét lífið 1047, sennilega eftir að hafa fallið af hestbaki. Haraldur, sem síðar hlaut viðurnefnið harðráði, tók þá við stjórntaumunum, ásamt  rússneskri drottningu sinni, Ellisif (Jelisaveta). Haraldur hafði nefnilega einnig komið fótunum undir sig í Kænugarði með því að kvongast dóttur furstans.

Haraldur harðráði, einn af helstu herkonungum Noregs, sem þjónað hafði þremur austur-rómverskum keisurum í Konstantínópel, stjórnaði Noregi með harðri hendi í nítján ár. Hann féll fyrir Haraldi Guðinasyni í orrustu hjá Stanfurðubryggju í Jórvík 1066 eftir að hafa reynt að leggja undir sig England.  Haraldar er m.a. minnst fyrir að hafa lagt grunninn að Osló, höfuðborg Noregs. Á tímabili hans var Noregi breytt í framsækið vestur-evrópskt konungsveldi með sameinaða kirkju að bakhjarli. Margir Íslendingar voru í þjónustu Haralds, þ.á m. flest hirðskáldin hans.

Gunnar Pálsson er sendiherra í Osló 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta