Ný skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkrahúsið á Akureyri
Ríkisendurskoðun telur að brugðist hafi verið við öllum athugasemdum stofnunarinnar varðandi skipulag, stefnumótun og stjórnun Sjúkrahússins á Akureyri á fullnægjandi hátt. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem farið er yfir viðbrögð við ábendingum sem fram komu í skýrslu stofnunarinnar árið 2011.
Ríkisendurskoðun gerði úttekt á Sjúkrahúsinu á Akureyri og skilaði Alþingi skýrslu með niðurstöðum sínum í júní 2011. Í skýrslunni voru settar fram níu ábendingar um aðgerðir til úrbóta sem stofnunin taldi nauðsynlegt að ráðast í varðandi starfsemi sjúkrahússin; þrjár sem beint var til velferðarráðuneytisins, fimm til Sjúkrahússins á Akureyri og ein til Embættis landlæknis. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni með ábendingunum hefur þeim öllum verið sinnt á fullnægjandi hátt.
Ábendingar til velferðarráðuneytisins fólust í því að ráðuneytið þyrfti að ákveða framtíðarskipulag heilbrigðismála á Norðurlandi, tryggja að stjórnendur sjúkrahússins sinntu skyldum sínum og endurskoða fyrirkomulag ferliverka. Var meðal annars vísað til þess að áform um sameiningu heilbrigðisstofnana og flutning öldrunarþjónustu til sveitarfélaga væru ekki nógu skýr, fyrirkomulag samninga um ferliverk við lækna í hlutastarfi á sjúkrahúsinu skapaði aðstöðumun og að óánægja lækna með þróun ferliverka og stjórnun og skipulag sjúkrahússins hefðu leitt til þess að erfitt væri að fá lækna til starfa.
Viðbrögð ráðuneytisins
Eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni með þeim ábendingum sem stofnunin setti fram árið 2011 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi verði sameinaðar á þessu ári, að undanskildu Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þá hefur verið ákveðið að hægja á áformum um flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga. Ríkisendurskoðun fagnar því að skipulagsmál heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi hafi skýrst og hvetur ráðuneytið til að tryggja að reglugerð um sameiningu stofnana taki gildi í haust eins og fyrirhugað er.
Varðandi aðgerðir til að styrkja og bæta stjórnun sjúkrahússins kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að miklar breytingar hafi orðið á stjórnun og skipulagi þess frá árinu 2011. Nýr forstjóri var ráðinn í mars 2012, nýtt skipurit tók gildi 1. janúar 2013 og af hálfu sjúkrahússins hefur verið mótuð stefna og framtíðarsýn til ársins 2017.
Samningar um ferliverk lækna á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa ekki verið endurskoðaðir en Ríkisendurskoðun telur að fyrir því hafi verið færð fullnægjandi rök. Aftur á móti er af hálfu velferðarráðuneytisins unnið að því að skipuleggja þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu og hefur ráðuneytið gert Ríkisendurskoðun grein fyrir því að með innleiðingu slíks kerfis muni læknar ekki geta fært verkefni frá sjúkrastofum á einkastofur sínar, fengið greitt frá Sjúkratryggingum Íslands og verið þannig í samkeppni við vinnuveitanda sinn. Ríkisendurskoðun lýsir ánægju með þetta í skýrslu sinni og hvetur ráðuneytið til að ljúka innleiðingu þjónustustýringar sem fyrst.