Japan rokkar með Ásgeiri Trausta
Mikilvægt hlutverk sendiráðs Íslands í Tókýó er að styðja og kynna íslenska menningu fyrir japönskum almenningi. Almennt stendur íslensk menning mjög vel að vígi í Japan og líklega eru það tónlistarmenn sem hafa staðið sig best í því að auka hróður hennar hér í þessu framandi landi. Það telst ekki til tíðinda þegar miðar á tónleika með Björk eða Sigur Rós seljast upp í þúsundavís á nokkrum mínútum. Í kjölfarið hafa komið ýmsir fleiri sem hafa vakið athygli og eftirtekt hjá kröfuhörðum japönskum tónlistarunnendum. Má þar nefna sem dæmi FM Belfast, Of Monsters and Men, Múm, Amiina og nú síðast Ásgeir Trausta og Ólaf Arnalds. Í Japan er mikil gróska á tónlistarsviðinu og er japanski tónlistarmarkaðurinn sá næst stærsti í heimi á eftir þeim bandaríska.
Af þeirri ástæðu er til mikils að vinna fyrir íslenskt tónlistarfólk og kappkostar sendiráðið því að leggja áherslu á þennan málaflokk.
Einstakt tækifæri fékkst til þess fyrir skömmu þegar tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti sótti Japan heim ásamt öflugu teymi meðspilara og aðstoðarmanna. Ásgeir Trausti hélt tvo tónleika í Japan sem voru hluti af röð tónleika í nokkrum ríkjum Asíu. Sendiráðið, í samvinnu við plötuútgefanda Ásgeirs Trausta í Asíu, Hostess Entertainment, og J-Wave, eina vinsælustu útvarpsstöð í Tókýó, gripu tækifærið og buðu til tónleika í húsakynnum sendiráðsins. Þar sem húsnæðið er ekki stórt var ákveðið að takmarka fjölda gesta við 40 manns og bjóða hlustendum útvarpsstöðvarinnar J-Wave að sækja um miðana. Skemmst er frá því að segja að fleiri en 1500 hlustendur höfðu samband til að sækja um þá 40 miða sem voru í boði. Komust því færri að en vildu.
Tónlistarviðburðurinn var vel auglýstur á útvarpsstöðinni í aðdraganda tónleikanna og smátt og smátt fikraði Ásgeir Trausti sig upp vinsældarlistana. Þegar að tónleikunum kom sat lag hans "Kings and Cross" á toppi vinsældarlista J-Wave og telst slíkt vera mjög góður árangur. Jafnframt sat plata Ásgeirs Trausta, "In the Silence" ofarlega á sölulista tónlistarveitunnar iTunes í Japan. Þegar tónleikadagurinn loks rann upp, og til að gera daginn eins íslenskan og hægt var, brast á með miklum og fordæmalausum snjóbyl í Tókýó. Þrátt fyrir ófærð og ýmis vandræði í samgöngumálum varð ekkert brottfall á boðsgestum sem mættu vel stemmdir á tónleikana og sumir í stígvélum með lambhúshettur, svona rétt til að undirstrika íslenska stemmningu í stórborginni.
Þess má geta að japanska útvarpsstöðin tók tónleikana upp og útvarpaði þeim í heild sinni næstu daga á eftir, en þetta var í fyrsta sinn sem útvarpsstöðin tók upp tónleika í sendiráði.
Það er mat sendiráðsins að þessi viðburður og samstarfið við vinsæla japanska útvarpsstöð hafi tekist vonum framar og að ekkert sé því til fyrirstöðu að endurtaka hann síðar og þá hugsanlega í samstarfi við aðra íslenska tónlistarmenn. Það er að minnsta kosti alveg ljóst að það er eftirspurn eftir íslenskri tónlist og fersku íslensku tónlistarfólki í Japan og mun sendiráð Íslands áfram kappkosta að gera sitt besta til að þjóna þessari eftirspurn og koma íslensku tónlistarfólki á framfæri.
Til gamans má geta að Ásgeir Trausti hefur nú boðað komu sína á japönsku tónlistarhátíðina Fuji Rock, eina stærstu tónlistarhátíð Asíu, sem fram fer í Niigata í júlí nk., en bæði Björk og Sigur Rós hafa sem kunnugt er gert það gott á þessari þekktu tónlistarhátíð.
Halldór Elís Ólafsson er ritari í sendiráðinu í Tókýó