Styrkir til atvinnumála kvenna
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, veitti fyrir skömmu styrki til atvinnumála kvenna en slíkir styrkir hafa verið veittir ár hvert frá árinu 1991. Veittir voru styrkir til 38 verkefna og námu styrkveitingarnar samtals 35 milljónum króna.
Atvinnustyrkirnir eru ætlaðir konum sem vinna að góðum viðskiptahugmyndum og verkefnum. Skilyrði er að verkefnin séu í eigu kvenna og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun. Í ár bárust 266 umsóknir um styrki til verkefna hvaðanæva af landinu og hefur ráðgjafarnefnd metið umsóknir á undanförnum vikum.
Litla gula hænan og Víur á Vestfjörðum
Hæstu styrkina, þrjár milljónir króna, hlutu verkefnin; „„Víur – ræktun fóðurskordýra á Vestfjörðum,“ – „Litla gula hænan – vistvæn kjúklingaframleiðsla“ og „vöruþróun á steinefna- og kísilríku drykkjarvatni.“ Sem dæmi um fleiri verkefni má nefna notkun vistvænna efna og endurnýtingu í blómaskreytingum, gerð tannstöngla úr stráum, markaðssetningu á fiskolíu, tölvuleiki í námi og kennslu og þróun á ullarsængum.
Markþjálfun fyrir þær konur sem hlutu styrki
Þeim sem hlutu styrki verður boðið að taka þátt í markþjálfunarverkefni það ár sem unnið er að verkefnum og var blásið til vinnustofu eftir úthlutun styrkjanna en í framhaldinu verða 4 fundir með markþjálfa. Markmiðið er að styrkhafar setji sér markmið í vinnu sinni við verkefnin, skoði styrkleika sína og hæfileika og skoða þau tækifæri og áskoranir sem framundan eru. Rúna Magnús hefur umsjón með verkefninu, en hún hefur mikla reynslu sem markþjálfi.
Með styrkjum sem þessum er tvímælalaust stuðlað að aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu. Fjölmörg ný fyrirtæki hafa litið dagsins ljós sem skapa störf, samfélaginu til hagsbóta. Einnig er styrkveiting sem þessi mikil hvatning fyrir þær sem er ekki síður mikilvæg þegar á hólminn er komið.