Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fróðlegur fundur um matarsóun

Fundurinn var fjölsóttur

Fjölmenni var á morgunverðarfundi um matarsóun, sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið stóð fyrir á Degi umhverfisins, föstudaginn 25. apríl sl. Yfirskrift fundarins var „Hættum að henda mat“ þar sem rætt var um matarsóun frá ólíkum sjónarhornum.

Á fundinum fjallaði Dr. Daði Már Kristófersson, umhverfis- og auðlindahagfræðingur um umfang, ástæður og afleiðingar matarsóunar. Kom meðal annars fram í máli hans að heildartap matvæla sé áætlað um 1,3 milljarðar tonna á heimsvísu sem er um þriðjungur þess matar sem framleiddur er í heiminum. Ólíkt er þó með hvaða hætti matarsóunin verður eftir heimshlutum – þannig verður mesti hluti matarsóunarinnar við framleiðslu þeirra í þróunarlöndum meðan stærsti hluti matarsóunar er hjá neytendum á Vesturlöndum.

Dr. Ragna Benedikta Garðarsdóttir, lektor í félagssálfræði, fór yfir það hvað stýrir okkur sem neytendum þegar kemur að kaupum á mat en ólíkir þættir hafa áhrif á það hversu mikill matur fer forgörðum hjá neytendum, s.s. hvernig framsetning er í matvöruverslunum, stærðir pakkninga og ýmsar skekkjur í ákvarðanatöku.

"" Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði fundinn.

Þóra Valsdóttir, verkefnisstjóri hjá Matís, var með erindi um það hvernig hægt er að auka nýtingu hráefna í matvælaframleiðslu. Hún sagði einnig frá nýsköpunarverkefni sem Matís stýrir um hráefnisnýtingu í tengslum við formennskuár Íslands í Norðurlandaráði.

Heiða Björg Hilmisdóttir, deildarstjóri Eldhúss og matsala á Landspítala Íslands, fjallaði um það hvernig unnið er að því að draga úr matarsóun í mötuneytum og matsölum Landspítalans en daglegar heitar máltíðir spítalans nema um 1,2 tonnum á dag. Óhjákvæmilega fellur því töluvert magn matar til á spítalanum daglega en ráðist hefur verið í aðgerðir til að draga úr sóun hans.

Loks fjallaði Dr. Rannveig Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Zero Waste verkefnisins, um þá vitundarvakningu sem hefur orðið varðandi þessi efni. Hún sagði frá ýmsum hópum sem stofnaðir hafa verið á samfélagsmiðlum og víðar til höfuðs matarsóun og gaf einföld ráð til að draga úr matarsóun á heimilum. Þá sagði hún frá norræna verkefninu Zero Waste sem Landvernd stýrir og styrkt er af Norrænu ráðherranefndinni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði gesti en fundinum stýrði Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Að loknum erindum gafst kostur á umræðum þar sem fyrirlesarar svöruðu spurningum utan úr sal.

Matur sem afgangs varð á fundinum var nýttur í Kaffistofu Samhjálpar.

"" Í lok fundar svöruðu fyrirlesarar spurningum fundargesta. F.v. Daði Már Kristófersson, Rannveig Magnúsdóttir, Ragna Benedikta Garðarsdóttir, Þóra Valsdóttir og Heiða Björg Hilmisdóttir..


 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta