Vegna umfjöllunar um mál hælisleitanda
Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um mál hælisleitanda frá Afganistan vill innanríkisráðuneytið taka eftirfarandi fram:
Ráðuneytið getur almennt ekki fjallað um mál einstakra hælisleitanda en vegna umræðu um ástand mannsins er rétt að upplýsa að hann hafði áður sótt um pólitískt hæli í Svíþjóð en var synjað. Hefur hann dvalist hérlendis frá árinu 2012 þegar hann sótti um hælisvist hérlendis.
Innanríkisráðuneytið mun afgreiða mál hans svo fljótt sem verða má með hliðjón af ástandi hans. Ráðuneytið hefur fylgst með ástandi mannsins í dag og verður frekari umönnun hans ákveðin í dag og honum veitt nauðsynleg heilbrigðisþjónusta.
Innanríkisráðherra ræddi í morgun við hóp fólks sem kom í ráðuneytið vegna máls umrædds hælisleitanda og upplýsti um framangreinda stöðu.Mikil vinna hefur að undanförnu farið fram innan ráðuneytisins til þess að hraða málsmeðferð vegna hælisleitenda. Sú vinna er á áætlun, frumvarp innanríkisráðherra því til stuðnings bíður lokaafgreiðslu á Alþingi og því er það von ráðuneytisins að sá biðtími sem umræddur hælisleitandi og fleiri hafa þurft að búa við styttist til muna. Að auki starfar nú með ráðherra þverpólitískur þingmannahópur, sem hefur það að markmiði að vinna að enn frekari umbótum í þessum málaflokki.