Aukinn stuðningur við verkefni vegna Úkraínu
Að tillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra hefur ríkisstjórnin ákveðið að auka stuðning við eftirlitsverkefni Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Úkraínu. Íslensk stjórnvöld munu leggja sex milljón króna fjárframlag til verkefnisins auk þess sem ráðuneytið mun senda annan starfsmann til starfa á vegum ÖSE. Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra starfar nú sem yfirmaður eins af eftirlitsteymum ÖSE í Úkraínu en nú er unnið að því að fjölga eftirlitsmönnum stofnunarinnar í landinu úr eitt hundrað í fimm hundruð.
Ríkisstjórnin ákvað jafnframt að tillögu Gunnars Braga að kosta borgaralegan sérfræðing til starfa á vegum Atlantshafsbandalagsins í einni af stjórnstöðvum þess í Evrópu. Framlagið verður liður í samstöðuaðgerðum bandalagsins gagnvart Eystrasaltsríkjunum og öðrum bandalagsríkjum í austurhluta Evrópu sem ákveðnar voru á utanríkisráðherrafundi bandalagsins í byrjun apríl.
„Það er brýnt að Ísland leggi sitt af mörkum til verkefna ÖSE og Atlantshafsbandalagsins vegna Úkraínu. Við viljum taka þátt í því að standa vörð um réttarríkið og grundvallargildi mannréttinda og málfrelsis í Evrópu. Markmið eftirlitsverkefnis ÖSE er að stuðla að því að íbúar landsins fái að ákveða framtíð sína á lýðræðislegan hátt og án íhlutunar Rússlands,“ segir Gunnar Bragi.
Hann segir öryggishorfur í Austur-Evrópu hafa farið versnandi í kjölfar ólöglegrar innlimunar Rússlands á Krímskaga og vegna framferðis aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu. Efling varna Atlantshafsbandalagsins sé því nauðsynleg og ákvörðun ríkisstjórnarinnar undirstriki samstöðu okkar með Eystrasaltsríkjunum og öðrum bandalagsríkjum í Austur-Evrópu á þessum viðsjárverðu tímum.
ÖSE gegnir mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í aðildarríkjunum sem eru fimmtíu og sjö talsins.