Ársfundur LSH: Varnarbaráttan að baki
Varnarbaráttan er að baki og tími sóknar og uppbyggingar tekin við, sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í ræðu á ársfundi Landspítalans í vikunni. Ráðherra ræddi um nýtingu aukinna fjármuna til spítalans á þessu ári og fjallaði einnig um byggingaráform og húsnæðismál spítalans.
Kristján Þór ræddi sérstaklega það traust sem landsmenn bera til spítalans sem væri svo sannarlega þjóðarsjúkrahús og augljóst að almenningur bæri hag hans fyrir brjósti. Í fjárlögum þessa árs hefði síðan vilji þingsins til þess að styrkja rekstrargrundvöll spítalans raungerst, meðal annars með stórauknu fé til tækjakaupa: Það er mikils vert að almenningur treysti Landspítalanum og beri hag hans fyrir brjósti – en ekki síður finnst mér gott að sjá í verki hvernig starfsfólkið hefur trú á spítalanum og þar með metnað til þess að leggja mikið á sig í þágu hans og sjúklinga.
Ráðherra lagði áherslu á að byggingaráformum við Landspítalann hafi verið haldið lifandi, þótt ríkisstjórnin hafi sett sem forgangsverkefni að leggja fram hallalaus fjárlög. Vandinn við framkvæmdirnar snérist hins vegar ekki um að útvega fjármagn heldur að standa undir fjármagnskostnaðinum og greiða til baka það fé sem fengið væri að láni:
Þegar ég tók við embætti heilbrigðisráðherra á liðnu ári, lagði ég áherslu á nauðsyn þess að forgangsraða í rekstri ríkisins. Ég hélt því fram að við Íslendingar höfum ekki efni á því að gera allt sem hugurinn stendur til en láta á sama tíma reka á reiðanum í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Þess vegna væri nauðsynlegt að forgangsraða.
Þannig eigum við að nálgast það mikla verkefni sem er bygging þjóðarsjúkrahúss. Sameiginlega eigum við Íslendingar sem betur fer töluvert miklar eignir – við höfum bundið fé í fyrirtækjum og fasteignum.
Það er tímabært að við ræðum opinskátt og án upphrópana hvort ekki sé skynsamlegt að losa um eitthvað af þessum eignum og nýta fjármunina í að reisa þjóðarsjúkrahús. Þannig forgangsröðum við í þágu allra landsmanna.
Ráðherra sagði frá því að hann hafi óskað eftir því við stjórn Nýs Landspítala að rýna í fyrirliggjandi áætlun um framkvæmdir og kanna hvort unnt sé að áfangaskipta þeim meira en áður var ráðgert. Hann vilji bíða eftir niðurstöðum þessarar úttektar áður en ákvarðanir verði teknar um næstu skref, en eftir standi óbreytt 100 milljóna króna fjárveiting til að hefja fullnaðarhönnun sjúkrahótels á lóð Landspítalans við Hringbraut og það mál sé í vinnslu.
Varðandi staðsetningu Landspítala lagði ráðherra áherslu á að sú ákvörðun liggi fyrir og hann ætli sér ekki að hefja þá umræðu að nýju: „Niðurstaðan er skýr, deiliskipulag þessa efnis hefur verið staðfest og nýr Landspítali verður byggður upp á þessum stað í samræmi við áætlanir.“
Gert er ráð fyrir að fullnaðarhönnun sjúkrahótels verði lokið í mars 2015. „Fyrir þann tíma og fyrir umræðu um fjárlög ársins 2015 ættu umræddar úttektir að liggja fyrir þannig að ljóst sé hvort möguleiki sé á að áfangaskipta verkinu meira. Samkvæmt lögum hef ég heimild til að ákveða að minnstu byggingarhlutarnir verði boðnir út í formi leiguleiðar, en lög gera ráð fyrir að annarsvegar meðferðarkjarninn sem er áætlað að kosti tæpa 37 milljarða og rannsóknarhúsið sem er á ætlun upp á um 9 milljarða verði hefðbundnar opinberar framkvæmdir. Þetta er langstærsti kostnaðarhluti framkvæmdanna eða um 80%. Þessum framkvæmdum þarf að finna stað í framkvæmdaáætlun ríkisins svo unnt sé að halda áfram með verkefnið.“