Hoppa yfir valmynd
8. maí 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tjón gæsa og álfta á ræktunarlöndum metið og aðgerðir undirbúnar

Heyskapur í Landsveit

Gerð verður könnun meðal bænda á ágangi álfta og gæsa á ræktarlönd þeirra. Markmiðið með könnuninni er að skrásetja umfang og eðli vandans sem hlýst af ágangi fuglanna og afla þannig gagna sem grunn fyrir aðgerðir í framhaldinu.  Að könnuninni standa umhverfis- og auðlindaráðuneytið, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, Umhverfisstofnun og Bændasamtökin í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Fuglavernd.  

Við gerð könnunarinnar verður notast við gagnagrunn Bændasamtakanna um ræktunarlönd, á svokölluðu Bændatorgi, sem allir bændur landsins hafa aðgang að. Könnunin er fyrsta skrefið í því að móta aðgerðaáætlun til að taka á vandanum en erfitt hefur verið að meta tjónið og bregðast við vegna skorts á góðum upplýsingum um umfang þess.

Í gagnagrunni Bændatorgs eru skráðar upplýsingar bænda um landnýtingu á sínum jörðum. Með umbótum sem gerðar verða á skráningarkerfinu munu bændur geta skilgreint og skráð tjón sem þeir verða fyrir af völdum villtra fugla sem og nákvæma staðsetningu tjónsins.

Stefnt er að því að kerfið verði tilbúið til að taka við þessum gögnum í næsta mánuði svo bændur geti skráð inn í það upplýsingar um ágang fugla á ræktarlönd þeirra í sumar og haust. Er ætlunin að taka einnig við upplýsingum frá bændum um hvaða varnir hafa gefist best á ólíkum spildum. Þannig verður könnunin hluti af  gagnvirku upplýsingakerfi sem orðið getur vettvangur viðbragðsáætlunar í framtíðinni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta