Hoppa yfir valmynd
13. maí 2014 Utanríkisráðuneytið

EES-samningurinn farsæll og styrkleiki til framtíðar

Gunnar Bragi og Dimitris Kourkoulas, aðstoðarutanríkisráðherra Grikklands.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í fundi EES-ráðsins í Brussel. Í ráðinu sitja, auk Íslands, Mauro Pedrazzini starfandi utanríkisráðherra Liechtenstein, Vidar Helgesen evrópumálaráðherra Noregs og fyrir hönd Evrópusambandsins, Dimitris Kourkoulas, aðstoðarutanríkisráðherra Grikklands,  sem er formennskuríki ráðherraráðsins.

Fulltrúi Evrópusambandsins lýsti ánægju sinni með stefnu Noregs og Íslands í málefnum EES.  EES samningurinn væri farsæl saga og sú nána samvinna sem í henni fælist væri styrkleiki til framtíðar. Þá hefði ESB kynnt sér nýsamþykkta Evrópustefnu íslensku ríkisstjórnarinnar og liti hana jákvæðum augum.

Á fundinum kom fram að jákvæð teikn væru á lofti með innleiðingu gerða ESB, allir aðilar stefndu að sama markmiði og hefðu sameiginlegra hagsmuna að gæta. Innleiðingarhallinn væri þó áfram áskorun sem leysa yrði.

„Fundurinn var árangursríkur, við ræddum um þau tækifæri og þær áskoranir sem unnið er að milli landanna og sambandsins í tengslum við EES samninginn. Það er áríðandi halda uppi og kynna mikilvægi EES samningsins sem hefur reynst  farsæll.  Við höfum nýtt okkur frelsi hans til að gera fríverslunarsamninga á okkar forsendum og sem EFTA ríki, jafnframt því að vera hluti af innri markaði ESB og eiga möguleika á því að sækja menntun og njóta ferðafrelsis innan sambandsins. Aðildin að EES veitir okkur bæði sérstöðu og frelsi til athafna,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson

Í tengslum við fundinn áttu EES/EFTA-ríkin sérstakt samráð og er það í samræmi við nýja Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda  um aukna samvinnu í tengslum við EES samninginn. Þá funduðu Norðurlöndin vegna sameignlegra hagsmunamála,  þar á meðal um orkuöryggi Evrópu.

Á morgun mun Gunnar Bragi funda meðal annars með Michel Barnier, sem fer með málefni innri markaðarins í framkvæmdastjórn ESB, og Kristni Árnasyni, framkvæmdastjóra EFTA.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta