Kostir varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir gegn síldardauða skoðaðir
Um 80.000 tonn af síld höfðu vetursetu í Kolgrafafirði, en síldin heldur yfirleitt til hafs í maímánuði. Því má slá föstu nú að engin hætta sé á síldardauða lengur í firðinum á þessu tímabili, eins og varð veturinn áður.
Hættan var talin mest yfir háveturinn, en þörungaflóra fjarðarins lifnar við með hækkandi sól og framleiðir súrefni. Mælingar sýna að súrefnisstaða í firðinum er mjög góð, samkvæmt nettengdum mælum sem komið var fyrir í firðinum í vetrarbyrjun. Mælirinn hefur nú verið tekinn upp vegna viðhalds, þar sem hættan er talin hjá. Verðmætar upplýsingar hafa fengist með nákvæmri vöktun á súrefnisstöðu og öðrum umhverfisþáttum í vetur, sem munu gagnast við skipulagningu aðgerða til að koma í veg fyrir síldardauða í framtíðinni.
Hafrannsóknastofnun og Vegagerðin hafa unnið að rannsóknum og mati á kostum við fyrirbyggjandi aðgerðir til að fyrirbyggja síldardauða í Kolgrafafirði um nokkurt skeið, í kjölfar þess að um 50.000 tonn af síld drápust í firðinum í tveimur atburðum veturinn 2012-2013. Fyrir liggur að algjör lokun fjarðarins með uppfyllingu í op á þveruninni yrði dýr aðgerð, með verulegum umhverfisáhrifum. Huga þyrfti vandlega að öryggis- og umhverfisþáttum, þar sem þessi aðgerð myndi búa til lón innan þverunar, þar sem sjávarfalla gætti ekki á sama hátt og fyrir utan þverun. Skipulagning, undirbúningur og framkvæmdir við lokun eru tímafrekar og lokun er af þeim sökum ekki talinn raunhæfur kostur fyrir næsta vetur, þótt áfram verði unnið að undirbúningi, svo hægt sé að skoða lokun sem langtímaaðgerð.
Stofnanirnar tvær hafa einnig skoðað líkleg áhrif þess að opna þverunina frekar, ef það kynni að leiða til breytinga á gegnumstreymi sjávar, sem hefði jákvæð áhrif á súrefnisbúskap. Niðurstöður rannsókna benda til þess að frekari opnun þverunar með nýrri brúargerð myndi ekki hafa afgerandi áhrif, en myndi verða mjög dýr. Fleiri kostir hafa verið skoðaðir, s.s. uppsetning á fælingarbúnaði fyrir utan þverunina og súrefnisauðgun fjarðarins. Áfram verður unnið að mati á slíkum kostum, en ljóst að veruleg óvissa ríkir um hvort þeir muni bera tilætlaðan árangur. Umhverfis- og auðlinda, og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur óskað eftir greinargerð frá Hafrannsóknarstofnun í samvinnu við Vegagerðina um mat á ofangreindum og öðrum mögulegum kostum fyrir miðjan júní.
Í nóvember sl. var gerð tilraun til þess að reka síldina út með því að nota hvellhettur til að styggja hana. Ekki tókst að ljúka tilrauninni á fullnægjandi hátt, þar sem aðstæður voru erfiðar og takmarkað magn af hvellhettum. Tilraunin þótti engu að síður bera góða raun og er í athugun að endurtaka hana í haust við betri aðstæður til að ná betri tökum á aðferðinni. Tvisvar í vetur féll súrefnismagn svo langt niður að skoðaður var möguleiki á að reyna að reka síldina út úr firðinum, en í bæði skiptin batnaði súrefnisstaðan með auknum vindi áður en blásið var til slíkra aðgerða.
Það er mat stjórnvalda að raunhæfasti og hagkvæmasti kosturinn til að draga úr líkum á síldardauða í Kolgrafafirði næsta vetur sé sú að vakta áfram fjörðinn með síritandi súrefnismæli og reyna að reka síldina út úr firðinum ef hætta er talin vera á ferðum. Ekki er þó hægt að útiloka hættu á síldardauða með þessu og ljóst að óvissa verður áfram fyrir hendi. Einn stærsti óvissuþátturinn lýtur að því hversu mikið magn síldar mun leita inn í Kolgrafafjörð næsta haust. Ljóst er að mikið magn var þar veturinn 2012-2013, eða yfir 200.000 tonn þegar mest var. Magnið sl. vetur var mun minna og bendir flest til þess að þar séu elstu árgangar íslensku sumargotssíldarinnar á ferð. Yngri árgangar virðast hafa haft vetursetu nú að mestu fyrir utan Suðausturland og í Kolluál utan við Snæfellsnes, auk þess sem nokkurt magn smásíldar fannst í Hvammsfirði. Það er þekkt að síldin breytir um hegðun hvað vetursetu varðar og óvíst er hve lengi hún leitar inn í Kolgrafafjörð í miklum mæli. Ýmislegt bendir því til þess að aðstæður veturinn 2012-2013 hafi e.t.v. verið óvenjulegar. Ef þróunin verður sú að magn síldar í Kolgrafafirði fer minnkandi á næstu árum er e.t.v. ekki ástæða til að grípa til róttækra aðgerða, sem yrðu mjög dýrar og hefðu mikið rask á umhverfi í för með sér. Því skiptir miklu máli að mæla innstreymi síldar í fjörðinn næsta haust vel og meta líkur á síldardauða og nauðsyn á viðbúnaði út frá því.