Hluti af jörðinni Bringum friðlýst sem fólkvangur
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, staðfesti í gær friðlýsingu hluta af jörðinni Bringum efst í Mosfellsdal sem fólkvang. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda svæðið til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu, auk þess að varðveita sérstakar náttúru- og menningarminjar.
Alls er um að ræða 18,6 hektara svæði sem kennt er við bújörðina Bringur, en hún varð til sem nýbýli úr landi prestsetursins að Mosfelli árið 1856. Jörðin fór í eyði árið 1966, en þar er að finna talsvert af mannvistarleifum á bæjarstæðinu og heimatúninu. Jörðin Bringur er norðan Köldukvíslar en þaðan er víðsýnt yfir Mosfellsdal og allt til hafs. Handan árinnar, utan fólkvangsins, rís Grímansfell, sem er hæsta fjall Mosfellsbæjar, og rétt við túngarðinn er Helgufoss í Köldukvísl.
Vestan við fossinn eru Helguhvammur, rústir Helgusels og Helguhóll, einnig nefndur Hrafnaklettur. Sagan segir að þar sé mikil huldufólksbyggð. Seljarústirnar vitna um löngu horfna atvinnuhætti þegar búpeningur var hafður í seli yfir sumartímann. Þjóðtrúin hermir að Helgusel sé nefnt eftir Helgu dóttur Bárðar Snæfellsáss, en önnur skýring á nafngiftinni byggir á því að landsvæðið var fyrrum í eigu kirkjustaðarins á Mosfelli og upphafleg merking nafnsins væri þá hið helga sel.
Örskammt frá túnfætinum í Bringum má sjá leifar af þjóðbraut, svonefndum Bringnavegi, sem lagður var árið 1910. Vegur þessi var tengileið milli Mosfellsdals og gamla Þingvallavegarins sem lá yfir Mosfellsheiði til Þingvalla.
Auk staðfestingar friðlýsingarinnar sem ráðherra undirritaði í gær undirrituðu bæjarstjóri Mosfellsbæjar og forstjóri Umhverfisstofnunar samning um umsjón fólkvangsins. Samkvæmt honum tekur Mosfellsbær að sér umsjón hins friðlýsta svæðis og skuldbindur sig til að gæta þess og upplýsa almenning um varðveislugildi þess.