60 ára afmæli norræns vinnumarkaðar
Þann 22. maí eru sextíu ár liðin frá því að samningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað var undirritaður. Norræna ráðherranefndin minnist þessa mikilvæga áfanga með afmælisráðstefnu um vinnumarkaðsmál sem haldin verður í Hörpu í Reykjavík dagana 21. – 22. maí.
Á ráðstefnunni verður horft um öxl og fjallað um starfið sem unnið hefur verið á sameiginlegum vinnumarkaði Norðurlanda undanfarin sextíu ár. Einnig verður horft fram á við og fjallað um viðfangsefni sem sameiginlegur norrænn vinnumarkaður stendur frammi fyrir meðal annars vegna hnattvæðingar og breyttrar aldurssamsetningar íbúanna.
Norrænir ráðherrar, þingmenn og aðilar vinnumarkaðsins taka þátt í pallborðsumræðum. Umræðurnar byggjast á rannsóknarniðurstöðunum úr skýrslunni Den nordiska välfärdsmodellens utmaningar (Áskoranir norræna velferðarlíkansins) sem gefin verður út í tengslum við ráðstefnuna. Höfundar skýrslunnar eru ýmsir þekktir hagfræðingar á Norðurlöndum.
Ráðstefnugestum gefst einnig kostur á að kynna sér íslenskt atvinnulíf þegar fyrirtæki verða heimsótt 22. maí.
- Nánari upplýsingar á vefnum norden.org