Hreyfiseðlar verða hluti af almennri heilbrigðisþjónustu
Samningar voru undirritaðir í dag um innleiðingu hreyfiseðla í samræmi við ákvörðun heilbrigðisyfirvalda um að gera hreyfiseðla hluta af almennri heilbrigðisþjónustu. Tilraunaverkefni um notkun hreyfiseðla er lokið og nú tekur við áætlun um endanlega innleiðingu þessa meðferðarforms hjá heilbrigðisstofnunum um allt land.
Sjúkraþjálfun Styrkur ehf. mun annast innleiðingu hreyfiseðlanna samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sem undirritaður var í dag. Jafnframt voru undirritaðir tveir samningar um notkun hreyfiseðla, annars vegar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Sambærilegir samningar verða undirritaðir á næstu dögum við Heilsugæslustöðina á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Gert er ráð fyrir að samningar liggi fyrir um notkun hreyfiseðla í öllum heilbrigðisumdæmum landsins fyrir lok júní næstkomandi. Hjá Embætti landlæknis stendur yfir vinna við gerð faglegra tilmæla um notkun hreyfingar sem meðferðar í heilbrigðiskerfinu.
Notkun hreyfiseðla felst í því að læknar geta á formlegan hátt vísað sjúklingum á hreyfingu telji þeir að reglubundin og skipulögð hreyfing geti gagnast þeim sem hluti af meðferð. Þegar mat læknis liggur fyrir tekur svokallaður hreyfistjóri við sem útbýr í samráði við sjúklinginn áætlun um hvers konar hreyfingu hann eigi að stunda, hve oft, hve lengi í einu og af hve mikilli ákefð. Áætlunin tekur mið af áhrifum hreyfingar á þau vandamál sem sjúklingurinn á við að etja.
Áskilið er að hreyfistjórarnir sem annast utanumhaldið séu menntaðir sjúkraþjálfarar með að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu. Hlutverk þeirra felst í samskiptum við lækni sjúklingsins og sjúklinginn sjálfan. Sjúklingar skrá hreyfingu sína samkvæmt þeirri áætlun sem gerð hefur verið í sérstakt forrit sem gerir hreyfistjórunum kleift að fylgjast með ástundun þeirra, þ.e.a.s. meðferðarheldni. Ef áætlun er ekki fylgt hefur hreyfistjórinn samband við viðkomandi, leitar skýringa og veitir hvatningu.
Góð meðferðarheldni
Tilraunaverkefni um notkun hreyfiseðla á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri hefur staðið yfir frá árinu 2011. Alls hafa um 230 einstaklingar fengið ávísað hreyfingu í meðferðarskyni. Verkefnið hefur gefist vel og eftir því sem skipulag og utanumhald hefur þróast hefur árangurinn batnað og meðferðarheldni aukist. Fyrstu fjóra mánuði ársins 2013 var meðferðarheldnin um 57% en fyrstu fjóra mánuði þessa árs var hún um 78% sem er mjög góður árangur.
Sænsk fyrirmynd
Innleiðing hreyfiseðla á Íslandi byggist á sænskri fyrirmynd en þetta meðferðarform hefur náð mikilli útbreiðslu þar og víðar um lönd á undanförnum árum og þykir árangursrík. Áætlun um innleiðinguna hér felur meðal annars í sér áætlun um ráðningu hreyfistjóra, staðsetningu þeirra í heilbrigðisumdæmum og fjölgun stöðugilda eftir því sem fram líða stundir.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagðist við undirritun samninganna í dag vera viss um að hreyfiseðlarnir eigi eftir að bæta líf margra og jafnframt hvetja fólk og styrkja til þess að taka aukna ábyrgð á heilsu sinni: „Hreyfing er öllum holl og getur hvoru tveggja nýst sem meðferð og forvörn við þeim margvíslegu lífsstílssjúkdómum sem herja á okkur í nútímasamfélaginu. Hjarta- og æðasjúkdómar, lungnasjúkdómar, stoðkerfissjúkdómar, sykursýki, offita, kvíði, þunglyndi og streita. Allt eru þetta sjúkdómar sem valda miklum skaða, skerða lífsgæði fólks og leiða marga til dauða. Allt sem við getum gert til að sporna við þessum sjúkdómum felur í sér ávinning, fyrir einstaklingana sem í hlut eiga og fyrir samfélagið í heild.“