Utanríkisráðherra ávarpar alþjóðlegan fund um jarðhitanýtingu í þróunarríkjum haldinn á Íslandi
Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, flutti í morgun opnunarávarp á árlegum fundi um þróun jarðhita í Austur Afríku.
Fundurinn er að þessu sinni haldinn á Íslandi, sem hluti af samstarfi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) og Afríkusambandsins. Fulltrúar frá Afríkusambandinu taka þátt í fundinum, m.a. ráðherra innviða- og orkumála (e. en Commissioner for Infrastructure and Energy), einnig sækja helstu veitendur þróunarsaðstoðar fundinn, þeirra ámeðal Alþjóðabankinn, Japanska þróunarsamvinnustofnunin og flest samstarfslönd jarðhitaverkefna í Afríku. Þessi samráðsvettvangur er mikilvægur þar sem gjafaríki og jarðhitalönd í Afríku koma saman og kynna það starf sem er í gangi og skoða möguleg samlegðaráhrif verkefna og samstarf.
Í ávarpi sínu lagði Gunnar Bragi áherslu á mikilvægi þess að aðstoða þróunarlönd við jarðhitaleit, enda sé aðgengi að sjálfbærri raforku mikilvægur liður í framþróun og hagsæld. Jafnframt lagði hann áherslu á að nýting jarðhita væri mikilvægur liður í að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og þess þurfi að gæta að jafnréttissjónarmið séu höfð að leiðarljósi við hönnun og framkvæmd verkefna.
Í kjölfar ávarpsins var Gunnar Bragi viðstaddur undirritun samnings um jarðhitaleit og -prófanir í Eþíópíu. Verkefnasamningurinn var undirritaður af Afríkusambandinu og Reykjavík Geothermal, og hljóðar hann upp á um 5 milljónir Bandaríkjadala. Fjármagn til verkefnisins kemur frá Áhættudreifingarsjóði fyrir jarðhita (Geothermal Risk Facility) sem er undir stjórn Afríkusambandsins og m.a. kostaður af þýska þróunarbankanum og Innviðasjóði ESB fyrir Afríku.
Þá átti Gunnar Bragi fundi með ráðherra innviða- og orkumála hjá Afríkusambandinu; Dr. Elham Mahmoud Ahmed Ibrahim og Ato Tewodros Gebregziabher Reda, vararáðherra námuvinnslu og orkumála í Eþíópíu. Á fundunum var rætt um samstarf Íslands á sviði jarðhita og mikilvægi jarðhitaþróunar fyrir ríkin í Austur Afríku.
Í kjölfar fundarins í dag verður svo haldið tveggja daga námskeið, sem Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna heldur utan um. Námskeiðið er liður í þeirri viðleitni að auka áhuga og þekkingu annara veitenda þróunaraðstoðar á jarðhita.
Fundurinn og námskeiðið er haldið í tengslum við jarðhitaverkefni Íslands, Alþjóðabankans og Norræna Þróunarsjóðsins (NDF) sem miðar að því að aðstoða lönd í sigdal Austur Afríku við rannsóknir og mannauðsuppbyggingu á sviði jarðhitanýtingar. ÞSSÍ sér um framkvæmd verkefnisins.