Nú er tíð að vakna: Kristján Friðrik og sjálfstæðisbarátta Noregs og Íslands
Á norska þjóðhátíðardaginn, 17. maí sl. voru liðin tvö hundruð ár síðan Norðmenn tóku sér stjórnarskrá, en hún er elsta gildandi stjórnarskrá Evrópu. Atburðarins var minnst með þriggja daga hátíðardagskrá í Noregi, en hún hófst í Osló 15. maí með því að forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, færði forseta Stórþingsins að gjöf sérstaka útgáfu af Landaurum Ólafs helga, fyrsta samningnum sem Ísland gerði við annað ríki árið 1033. Samningurinn kvað á um frjálsar siglingar á milli landanna, aðgang að viði og vatni í skógum Noregs og lagaleg réttindi Íslendinga í Noregi. Á móti féllust Íslendingar á að greiða Norðmönnum fast gjald á hvern fullorðinn einstakling sem kom til Noregs, svokallaða landaura, auk þess sem þeir skuldbundu sig til að taka þátt í herferðum Noregskonungs á meðan þeir dvöldu í landinu. Gjöfinni var komið fyrir í viðeigandi skríni í sýningarsal í kjallara Stórþingsins, þar sem frumgerð norsku stjórnarskrárinnar var einnig til sýnis.
Hið örlagaríka ár, 1814, markaði djúp spor í sögu Noregs og annarra Norðurlanda, þ.á m. Íslands. Íslendingar höfðu svarið Noregskonungi hollustueið með Gissurarsáttmála árið 1262 og hafði markmiðið að miklu leyti verið það sama og með Ólafssamningnum áður; að greiða götu Íslendinga til viðskipta í nágrannaríkjum. Þó fór svo að lokum að Íslendingar misstu sjálfstæði sitt til norsku krúnunnar. Noregur varð hluti af danska konungdæminu 1536 og fylgdu þá skattlöndin Ísland, Grænland og Færeyjar með í kaupunum. Ísland varð þannig hluti af dansk-norska konungsveldinu fram til þess tíma að Danir neyddust til að láta Noreg af hendi við Svíþjóð með Kílarsamningnum ("Kílarfriðnum" á íslensku ) í janúar 1814.
Með Kílarsamningnum var endir bundinn á ófrið milli Bretlands og Svíþjóðar, sem börðust gegn Frakklandi í Napóleons-stríðunum, og dansk-norska ríkisins sem lagst hafði á sveif með Napoleon Bonaparte. Samkvæmt samningnum var Ísland, ásamt Grænlandi og Færeyjum, áfram í sambandi við Danmörku, þó svo að stærstur hluti Noregs félli í hlut Karl XII Svíakonungs.
Norðmenn notuðu hins vegar tækifærið til að koma saman á Eiðsvelli, þar sem þeir lýstu sjálfstæði sínu og tóku upp stjórnarskrá. Þeir ákváðu þá einnig að taka tuttugu og átta ára gamlan danskan prins, Kristján Friðrik, sem gegnt hafði starfi landshöfðingja, til konungs. Var hann krýndur á Eiðsvelli 17. maí 1814, en varð að láta af völdum minna en hálfu ári síðar eftir að hafa farið fyrir norskum her gegn Svíum. Norðmenn héldu þjóðþingi og stjórnarskrá, en voru undir Svíakonungi til 1905, þegar norska konungdæmið var endurreist.
Kristján Friðrik átti lengi erfitt uppdráttar í sögubókum, einkum í Noregi, en honum var kennt um þá smán að hafa fyrirgert norska konungdæminu. Á síðari tímum hefur hann þó fengið uppreist æru, einkum eftir að í ljós kom að hann gegndi lykilhlutverki í sjálfstæðisbaráttu Noregs á árunum 1813 - 1814. Líta margir svo á að án Kristjáns Friðriks hefðu Norðmenn ekki eignast stjórnarskrá á Eiðsvelli. Tuttugu og fimm árum síðar, árið 1839, tók Kristján Friðrik við konungstign í Danmörku undir nafninu Kristján VIII. Var hann síðasti einvaldskonungur Danmerkur og féll frá 1848.
Kristjáns Friðriks verður þó ekki einungis minnst fyrir framlag sitt til norskrar sjálfstæðisbaráttu. Eftir að hafa tekið við dönsku krúnunni, varð hann fyrstur Danakonunga til að svara ítrekuðum bænaskrám Íslendinga um innlent ráðgjafarþing, hliðstætt dönsku stéttaþingunum, en af því tilefni skrifaði Jón Sigurðsson í bréfi til vinar síns Páls Melsteðs þegar í maí 1840: "Nú er tíð að vakna......" Tilskipun konungs um endurreisn Alþingis var gefin út 1843 og kom þingið fyrst saman 1. júlí 1845 í húsakynnum Menntaskólans í Reykjavík núverandi.
Kristján VIII reyndist Íslendingum á margan hátt vel og var það t.d. hans ákvörðun 1844 að hver sá sem vildi fá embætti á Íslandi skyldi vera vel að sér í íslenskri tungu. Ári eftir að Norðmenn færa Kristjáni Friðrik þakkir fyrir framlag hans til norskrar sjálfstæðisbaráttu, hafa Íslendingar einnig tækifæri til að minnast þessa velgjörðarmanns síns þegar 170 ár verða liðin frá endurreisn Alþingis.
Gunnar Pálsson er sendiherra í Osló