Alþingi samþykkir breytingar á skipulagslögum
Alþingi hefur samþykkt breytingu á bótaákvæði skipulagslaga. Breytingunni er ætlað að endurspegla gildandi réttarframkvæmd og skýra með ítarlegri hætti hvenær bótaréttur stofnast vegna skipulagsáætlana.
Þá voru gerðar breytingar á nokkrum ákvæðum laganna í ljósi reynslu af framkvæmd þeirra. Ber þar helst að nefna ákvæði er varða óverulega breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu, skipan varamanna í svæðisskipulagsnefndir, tímafresti fyrir tilkynningar um endurskoðun svæðisskipulags og aðalskipulags í kjölfar sveitarstjórnarkosninga, lengingu tímafrests vegna afgreiðslu deiliskipulags og hæfiskröfur þeirra sem sinna skipulagsgerð.
Að auki var ákvæði er varðar svæðisskipulag miðhálendisins breytt, þar sem kveðið er á um málsmeðferð Skipulagsstofnunar við breytingar á svæðisskipulagi miðhálendisins. Loks var gerð breyting á ákvæði er varðar stafrænt skipulag, þar sem m.a. er kveðið á um skil skipulagsáætlana og birtingu þeirra með stafrænum hætti.