Hoppa yfir valmynd
28. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Reglur fyrir sveitarfélög vegna móttöku flóttafólks

Ungur drengur
Ungur drengur

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, undirritaði í dag leiðbeinandi reglur velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög þar sem fjallað er um hvernig staðið skuli að móttöku flóttafólks og styðja það til samfélagslegrar þátttöku.

Reglurnar hafa ekki lagagildi en snúa að því að leiðbeina sveitarfélögum á skilmerkilegan hátt hvernig framkvæma skuli þjónustu og veita flóttafólki stuðning á grundvelli sérstöðu þess samkvæmt skilgreiningum alþjóðasamninga. Er þá horft til þess að fólk sem fær stöðu flóttafólks hér á landi hefur búið við fjölþættan vanda til lengri eða skemmri tíma og þarfnast því þverfaglegs stuðnings frá velferðar- og menntakerfinu og ekki síst félagsráðgjafar með stuðningi, upplýsingagjöf og leiðbeiningum um félagsleg réttindi. Auk flóttafólks taka leiðbeiningarnar til hælisleitenda sem Útlendingastofnun eða innanríkisráðuneytið ákveða að veita dvalarleyfi vegna ríkra mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að viðkomandi sé synjað um stöðu flóttamanns.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segist viss um reglurnar verði sveitarfélögum sem taka á móti flóttafólki mikilvæg leiðsögn um það hvernig standa skuli að móttöku og þjónustu við það, ekki aðeins þannig að framkvæmdin samræmist lögum og reglum þar að lútandi, heldur einnig til þess að sem best verði að málum staðið í þágu fólksins, með velferð þess og félagslega aðlögun að leiðarljósi: „Það er allra hagur að vel sé staðið að móttöku og þjónustu við flóttafólk. Þannig stuðlum við að því að nýir íbúar sveitarfélags sem koma á þessum forsendum festi fljótt rætur, verði virkir þátttakendur og sjálfsagður hluti af samfélaginu.“ Eygló segir enn fremur að skili reglurnar ekki tilætluðum árangri telji hún vel koma til greina að setja lög um móttöku flóttafólks í samráði við sveitarfélögin.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta