Fjölþættar verndar- og uppbyggingaraðgerðir á ferðamannastöðum í sumar
Ráðist verður í sumar í 45 uppbyggingar- og verndarverkefni á ferðamannastöðum sem eru í umsjón stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í kjölfar þess að ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku fjárframlag til slíkra verkefna. Meðal annars verður ráðist í úrbætur og nýlagningu göngustíga á Laugaveginum milli Landmannalauga og Þórsmerkur, smíðaðir verða nýjir útsýnispallar við Gullfoss, Dettifoss og Dynjanda og aðstaða við Svartafoss í Skaftafelli lagfærð til muna.
Alls renna um 174,5 milljónir til framkvæmda á svæðum í umsjá stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, þ.e. Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs, Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Í heild nemur framlag til uppbyggingar og verndaraðgerða í sumar ríflega 380 milljónum króna en um er að ræða 88 verkefni víðs vegar um landið. Önnur verkefni sem ráðist verður í eru á vegum Þingvallaþjóðgarðs og ýmissa sveitarfélaga. Fénu verður úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og gaf atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið í dag út reglugerð vegna úthlutunarinnar.
Flest verkefnin lúta að úrbætum og nýlagningu göngustíga sem og gerð útsýnispalla og öryggisgrindverka á ferðamannastöðum. Þannig verður ráðist í framkvæmdir vegna göngustíga í nágrenni Mývatns og Laxár, s.s. við Vindbelgjarfjall, á Kálfaströnd og við Skútustaðagíga, Dimmuborgir og í Seljahjallagili. Sömuleiðis verður ráðist í úrbætur í friðlandinu í Svarfaðardal, á Hornströndum, Grábrók, Búðum, Arnarstapa, Hellnum og Skálasnaga á Snæfellsnesi. Þá verður ráðist í framkvæmdir á Hveravöllum, í Dyrhólaey, á Djúpavogi, í Eldgjá, Esjuhlíðum, Þórsmörk, við Hjálparfoss í Þjórsárdal og Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri og í fjörunni við Vík í Mýrdal.