Utanríkisráðherra fundar með varaforsætisráðherra Póllands
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Elzbieta Bienkowska, aðstoðarforsætisráðherra Póllands, sem er einnig ráðherra innviða og þróunar. Á fundi ráðherranna í Varsjá var rætt um leiðir til að efla tvíhliða samvinnu ríkjanna fyrir tilstilli uppbyggingarsjóðs EES, einkum á sviði jarðhitanýtingar, en einnig á sviði mennta- og menningarmála og rannsókna og vísinda.
„Við höfum rætt um þá möguleika sem eru á samvinnu landanna. Stuðningur Póllands við Ísland þegar á reyndi gleymist seint og við viljum gjarnan stefna að aukinni samvinnu á sviðum þar sem sérþekking Íslands getur orðið Pólverjum að liði. Þar liggur beinast við að horfa til jarðhita,“ sagði Gunnar Bragi.
Pólland er langstærst þeirra ríkja sem njóta stuðnings Uppbyggingarsjóðs EES. Á yfirstandandi starfstímabili 2009-2014 renna þangað um 267 milljón evrur. Auk þess að draga úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði á evrópska efnahagssvæðinu er annað meginmarkmið sjóðsins fólgið í að styrkja tvíhliða tengsl EFTA-ríkjanna sem aðild eiga að EES-samningnum við styrkþegaríkin í suður-og austur-Evrópu.
Í kvöld verður Gunnar Bragi viðstaddur afhendingu fyrstu samstöðuverðlaunanna í Varsjá í boði Radoslaw Sikorski utanríkisráðherra Póllands. Verðlaunin eru til þess að minnast þess að 25 ár eru liðin frá fyrstu frjálsu kosningunum í Póllandi, en þær mörkuðu þáttaskil í þeirri atburðarás sem leiddi til falls kommúnismans í Austur-Evrópu.