Íslensk kvikmyndahátíð og ljósmyndir Ragnars Axelssonar í Nuuk
Íslensk kvikmyndahátíð var haldin í Nuuk dagana 24. og 25. maí í samstarfi aðalræðisskrifstofu Íslands, Katuaq menningarmiðstöðvarinnar í Nuuk og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Á hátíðinni voru sýndar myndirnar Andlit norðursins, Hross í oss, Eldfjall, Djúpið, Svartur á leik og Hetjur Valhallar, Þór. Aðsókn á hátíðina var ljómandi góð, yfir 600 manns mættu og má t.d. nefna að mun fleiri voru í salnum þegar Andlit norðursins var sýnd en á sýningu á stórmyndinni Nóa, sem fyrir nokkru var sýnd í Katuaq.
Segja má að Ragnar Axelsson, RAX, hafi verið maður helgarinnar í Nuuk. Kvikmynd Magnúsar Viðars Sigurðssonar, Andlit norðursins, sem fjallar um ævi og störf Ragnars var opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar. Sýning á ljósmyndum hans var sett upp í verslunarmiðstöðinni Nuuk Center í samstarfi við Flugfélag Íslands og Crymogea, útgáfufélag Ragnars. Ragnar áritaði svo bók sína Last Days of the Arctic í bókabúðinni ATUAGKAT í Nuuk Center á laugardaginn. KNR, grænlenska ríkissjónvarpið, sýndi viðtal við Ragnar og Sermitsiaq, stærsta blaðið í Grænlandi birti opnuviðtal við hann, þar sem fjallað er um sýninguna og störf hans í Grænlandi.
Ljósmyndir Ragnars eru ómetanleg heimild um líf og störf veiðimanna Grænlands. Í móttöku, sem haldin var honum til heiðurs og í tilefni af kvikmyndahátíðinni, þakkaði Aleqa Hammond, formaður landsstjórnar Grænlands Ragnari framlag hans með hlýjum orðum. Það var auðheyrt á máli hennar að myndir Ragnars höfðu haft sterk áhrif á hana enda eiga þau það sameiginlegt að hafa mikla aðdáun á veiðimönnum norður Grænlands. Vitnaði Aleqa í Ragnar og var greinilega skemmt yfir þeirri lýsingu hans að James Bond væri eins og lítill strákur í samanburði við veiðimenn inúíta.
Af öðrum myndum kvikmyndahátíðarinnar vakti Hross í oss líklega mesta athygli. Myndin vann nýlega til verðlauna í Kaupmannahöfn og hefur það sjálfsagt orðið til að vekja athygli á myndinni. Hátíðin tókst mjög vel og aðstandendur hennar hafa þegar lagt drög að því að leikurinn verði endurtekinn á næsta ári. Það væri gaman ef Íslenska kvikmyndahátíðin yrði fastur liður í bæjarlífinu í Nuuk.
Pétur Ásgeirsson er aðalræðismaður í Nuuk