Hoppa yfir valmynd
5. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ákvörðun um móttöku ellefu flóttamanna

Félags- og húsnæðismálaráðherra og utanríkisráðherra hafa samþykkt tillögu flóttamannanefndar um móttöku fimm hinsegin flóttamanna frá Simbabve, Úganda og Kamerún og sex manna fjölskyldu frá Afganistan. Mótttökusveitarfélög flóttafólksins eru Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær.

Tillaga flóttamannanefndar um móttöku fólksins byggist á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 10. september síðastliðnum þar sem ákveðið var að taka annars vegar á móti hinsegin fólki og hins vegar konum í hættu frá Afganistan, alls 10–14 einstaklingum.

Flóttamannanefnd skoðaði umsóknir flóttafólks sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lét nefndinni í té. Reykjavíkurborg verður mótttökusveitarfélag hinsegin flóttafólksins og hefur því átt aðkomu að málinu með flóttamannanefnd. Ein kona er í hópi flóttafólksins, hinir fjórir eru karlmenn. Öll eiga þau sameiginlegt að hafa flúið heimaland sitt vegna ofsókna sem þau hafa sætt vegna kynhneigðar sinnar.

Hafnarfjarðarbær verður móttökusveitarfélag afgönsku fjölskyldunnar; ekkju með fimm börn. Tillaga flóttamannanefndar um að bjóða konunni með börnum sínum til Íslands er í samræmi við áherslur Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um móttöku fólks sem fellur undir viðmið stofnunarinnar um konur í hættu.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna verður nú tilkynnt að íslensk stjórnvöld séu tilbúin til að taka á móti þeim.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta