Hoppa yfir valmynd
11. júní 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Formlegt samstarf vestnorrænna heilbrigðisráðherra

Steen Lynge, Kristján Þór og Karsten Hansen
Steen Lynge, Kristján Þór og Karsten Hansen

Heilbrigðisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands undirrituðu í gær samkomulag sem kveður á um formlegt samstarf landanna þriggja á sviði heilbrigðismála. Ráðherrarnir munu framvegis hittast árlega þar sem fjallað verður um helstu mál sem þjóðirnar vilja vinna að sameiginlega.

Að undirritun lokinni bauð Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra samráðherrum sínum; Karsten Hansen frá Færeyjum og Steen Lynge frá Grænlandi, til kvöldverðar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Löndin hafa um langt skeið átt töluvert samstarf á sviði heilbrigðismála og heilbrigðisþjónustu en áhersla hefur verið lögð á að efla það enn frekar í umræðum á vettvangi Vestnorræna ráðsins. Meðal annars hefur verið horft til samstarfs um menntun heilbrigðisstarfsfólks, sameiginleg innkaup á lyfjum og tækjabúnaði, rafrænar sjúkraskrár og fjarlækningar svo eitthvað sé nefnt.

Með samkomulaginu sem undirritað var í gær er samstarfi landanna á sviði heilbrigðismála búin formleg umgjörð sem gerir ráð fyrir árlegum fundum heilbrigðisráðherranna. Gerð verður áætlun um samstarf landanna þriggja þar sem tilgreind verða mikilvægustu verkefnin sem löndin ætla að vinna að sameiginlega og þeim settur tímarammi.

Samstarfslöndin munu leiða samstarfið til skiptist og kemur það í hlut Íslands að fara með formennskuna fyrsta árið. Í því felst meðal annars að vinna drög að samstarfsáætlun sem fjallað verður um á fyrsta samstarfsfundi ráðherranna samkvæmt samkomulaginu en hann verður haldinn á Grænlandi í júní á næsta ári.

Samkomulagið tekur gildi 1. júlí næstkomandi. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta