Hoppa yfir valmynd
11. júní 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur um norrænt samstarf á sviði heilbrigðismála

Kristján Þór tekur við skýrslunni úr hendi Bo Konbergs
Kristján Þór tekur við skýrslunni úr hendi Bo Konbergs

Sænski stjórnmálamaðurinn Bo Könberg afhenti í dag Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra skýrslu sína með tillögum til norrænna félags- og heilbrigðisráðherra um framtíðarsýn og brýnustu verkefni norræns samstarfs á sviði heilbrigðismála. Skýrslan inniheldur 14 tillögur sem eiga að vera framkvæmanlegar á 5–10 ára tímabili. Brýnasta málefnið varðar baráttuna gegn sýklalyfjaþoli.

Kristján Þór tók við skýrslunni fyrir hönd Íslands sem gegnir nú formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og munu norrænu félags- og heilbrigðisráðherrarnir ræða tillögurnar nánar í framhaldinu. Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, var einnig viðstaddur afhendingu skýrslunnar sem fram fór í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík.

Norræna ráðherranefndin á sviði félags- og heilbrigðismála ásamt framkvæmdastjóra nefndarinnar fólu Bo Könberg að kanna hvernig auka mætti norrænt samstarf um heilbrigðismál.

Tillögurnar 14 fjalla um uppáskriftir fyrir sýklalyfjum, mjög sérhæfðar meðferðir, sjaldgæfa sjúkdóma, rannsóknir byggðar á gögnum úr sjúkraskrám, lýðheilsu, misrétti í heilbrigðismálum, hreyfanleika sjúklinga, rafræna heilbrigðisþjónustu og tæknimál, geðlækningar, viðbúnað í heilbrigðismálum, lyf, starfsmannaskipti og sérfræðinga í löndum Evrópusambandsins.

Baráttan gegn sýklalyfjum

„Allar tillögur mínar í skýrslunni eru mikilvægar en brýnast er að við bregðumst kröftugt við Bo Könberg og Dagfinn Høybråtensýklalyfjanotkun og komum þannig í veg fyrir að sýklalyfin tapi virkni sinni,“ segir Bo Könberg. „Því miður er sú þróun þegar hafin. Þó að notkun sýklalyfja sé ekki mikil á Norðurlöndum er ástæða til þess að við tökum ákvörðun um að draga úr uppáskriftum fyrir sýklalyfjum þannig að þær verði fæstar miðað við önnur Evrópulönd að fimm árum liðnum.“

Könberg leggur einnig til að Norðurlönd beiti sér í þessum efnum á alþjóðavísu og að auðugustu löndin verji 75 milljörðum sænskra króna á næstu fimm árum til þróunar á nýjum sýklalyfjum.

„Þetta eru miklir peningar, en þó ekki nema einn tuttugasti hluti af prómilli þegar litið er til árlegrar vergrar þjóðarframleiðslu í löndunum.“

Samstarfsnet um sjaldgæfa sjúkdóma

Könberg segir mörg sóknarfæri felast í skipulagðara samstarfi milli Norðurlandanna. Hann leggur meðal annars til að komið verði á fót norrænum undirbúningshópi um mjög sérhæfðar meðferðir, samstarfsneti til að tryggja og þróa sérfræðiþekkingu um sjaldgæfa sjúkdóma og sýndarmiðstöð fyrir rannsóknir sem byggja á gögnum úr sjúkraskrám.

„Auk þess hve margt er líkt með menningu og tungumálum þjóðanna eru löndin tiltölulega fámenn, sjúkdómsmynstur svipuð og klínísk vinnubrögð einnig. Samstarfið er þegar mikið og gott, en það má efla og þróa til að auka skilvirkni og gæði“ segir Könberg.

„Skýrslan sýnir að til mikils er að vinna með nánara Norðurlandasamstarfi um heilbrigðismál. Í henni eru tillögur sem miða að auknum gæðum og betri nýtingu sameiginlegra úrræða og þróunarmöguleika,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta