Tímamót í útlendingamálum
Með það að markmiði að hraða málsmeðferð vegna hælisumsókna, bæta verklag og tryggja sem besta nýtingu fjármagns hafa innanríkisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi í dag gert með sér samning um þjónustu við hælisleitendur. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Hermann Ottósson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, undirrituðu samninginn í höfuðstöðvum Rauða krossins í dag.
Undanfarið ár hefur mikil áhersla verið lögð á umbætur og endurskoðun á verklagi í innflytjendamálum og þá sérstaklega ört fjölgandi umsóknum vegna óska um alþjóðlega vernd. Innanríkisráðuneytið hefur lagt mikla vinnu í að undirbúa umræddar umbætur og byggt þær að mestu á reynslu, áherslum og aðferðum Norðmanna. Meginmarkmið þessara breytinga hefur einkum verið að fylgja eftir áherslum innanríkisráðherra, ríkisstjórnar og Alþingis um styttri málsmeðferð en á umliðnum árum hefur afgreiðsla umræddra mála tekið allt upp í tvö til þrjú ár.
Þrátt fyrir að umtalsverður árangur hafi náðst í að stytta þennan tíma og bæta verklag mun sá samningur sem nú hefur verið undirritaður við Rauða krossinn samhliða þeim lagabreytingum sem Alþingi samþykkti í lok þings, tryggja að raunverulegar breytingar eru nú í sjónmáli. Þannig er stefnt að því að frá og með 25. ágúst 2014 verði málsmeðferðartími hælisumsókna hér á landi að meðaltali ekki lengri en 90 dagar.
Hanna Birna sagði að lengi hefði verið unnið að þessum breytingum, þeim sé ætlað að tryggja verulegar umbætur í málaflokknum og það sé til marks um þá vönduðu vinnu sem ráðuneytið hefði lagt í verkefnið að Rauði krossinn yrði með þessum samningi helsti samstarfsaðili ráðuneytisins á þessu sviði.
„Aðkoma Rauða krossins að þessum verkefnum hefur mikla þýðingu, ekki aðeins vegna þeirrar þekkingar og reynslu sem samtökin hafa af málefnum tengdum innflytjendum, heldur einnig vegna þeirra gilda og fagmennsku sem einkenna störf samtakanna. Hér er um að ræða mikil tímamót í þessum málaflokki og við getum í framhaldinu tryggt hælisleitendum betri og skilvirkari þjónustu samhliða betri nýtingu fjármagns,“ sagði Hanna Birna.
Innanríkisráðherra minnti einnig á þann áfanga sem náðist sem einróma samþykkt viðamikilla breytinga á útlendingalögum á Alþingi sl. vor. Eitt meginmarkmiðið með lögunum var að stytta málsmeðferðartíma, en auk þess fól frumvarpið í sér stofnun sérstakrar og sjálfstæðrar kærunefndar sem mun endurskoða ákvarðanir Útlendingastofnunar í stað innanríkisráðuneytisins. Nefndin mun taka til starfa um næstu áramót, en undirbúningur er þegar hafinn og stefnt að því að nefndin verði skipuð á næstunni. Hún verður skipuð hæfustu sérfræðingum á þessu sviði.
Loks er rétt að taka fram að innanríkisráðherra skipaði í ársbyrjun þverpólitíska þingmannanefnd, undir forystu Óttarrs Proppé alþingismanns, til að meta hvort og þá með hvaða hætti þörf sé á heildarendurskoðun á löggjöf um málefni útlendinga á Íslandi. Störf nefndarinnar hafa gengið vel og þess má vænta að næsta vetur liggi fyrir frumvarp um heildarendurskoðun útlendingalaga.
Ítarefni:
Samningur við Rauða krossinn á Íslandi
Innanríkisráðuneytið og Rauði krossinn hafa skrifað undir samning um aðstoð og þjónustu við einstaklinga sem óskað hafa eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi. Meginmarkmið samningsins er að tryggja hlutlausa og óháða réttargæslu fyrir alla hælisleitendur þannig að jafnræðis sé gætt og að allir hælisleitendur fái vandaða málsmeðferð. Í samningnum felst auk þess að Rauði krossinn metur reglulega aðbúnað hælisleitenda, sinnir heimsóknarþjónustu og félagsstarfi. Rauði krossinn mun jafnframt halda úti alþjóðlegri leitarþjónustu fyrir hælisleitendur og flóttamenn til þess að hafa uppi á týndum ættingjum sínum og endurvekja samband innan fjölskyldna sem hafa sundrast þegar slíkt er mögulegt.
Samkvæmt samningnum mun Rauði krossinn taka tímabundið við því hlutverki að gæta hagsmuna hælisleitenda við umsókn þeirra um hæli. Rauði krossinn mun auglýsa eftir starfsmönnum sem einungis munu sinna þessu verkefni og meðal hæfiskrafna er embættis- eða meistarapróf í lögfræði og sérþekking á málefnum flóttamanna. Í hagsmunagæslu talsmannanna felast meðal annars leiðbeiningar og upplýsingagjöf í móttökumiðstöð, þátttaka í að greina sérstaklega viðkvæma hælisleitendur, viðvera í viðtali og fleira. Samningurinn gildir í 12 mánuði og verður endurnýjaður til tveggja ára ef fyrirkomulagið gefst vel.
Breytingar á útlendingalögum
Alþingi samþykkti 16. maí síðastliðinn lagafrumvarp innanríkisráðherra um viðamiklar breytingar á útlendingalögum. Eitt megin markmiðið með lögunum var að stytta þann tíma sem hælisleitendur þurfa að bíða eftir niðurstöðu í máli sínu hér á landi. Í samræmi við þetta hefur í ráðuneytinu verið unnið að innleiðingu nýs verklags við vinnslu hælismála þar sem lögð er áhersla á hraðari málsmeðferð, vandaðra verklag og aukna þjónustu við hælisleitendur og flóttamenn hér á landi.
Kærunefnd útlendingamála
Markmiðið með skipan kærunefndar er meðal annars að mæta gagnrýni á það fyrirkomulag sem ríkt hefur að innanríkisráðuneytið endurskoði ákvarðanir Útlendingastofnunar þar sem ráðuneytið geti ekki talist óháður og óhlutdrægur aðili. Hefur sú gagnrýni bæði komið frá innlendum og erlendum fagaðilum. Innanríkisráðherra tók undir þá gagnrýni þegar hún lagði frumvarpið fram á Alþingi og sagði þá jafnframt að mikilvægt væri að mannréttindasamtök ættu aðild að nefndinni.
Um skipan kærunefndarinnar segir meðal annars svo í lögunum:
- Ráðherra skipar kærunefnd útlendingamála til fimm ára í senn.
- Nefndin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Nefndarmenn skulu vera sérfróðir um mál er lög þessi ná til.
- Formaður nefndarinnar skal hafa starfið að aðalstarfi. Hann skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara.
Hinir tveir nefndarmennirnir eru skipaðir til fimm ára í senn. Annar skal tilnefndur af Mannréttindaskrifstofu Íslands og hafa sérþekkingu á sviði útlendingamála, einkum hvað varðar dvöl og búsetu útlendinga hér á landi. Hinn skal tilnefndur af Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og hafa sérþekkingu á sviði útlendingamála, einkum hvað varðar málefni flóttamanna og rétt til alþjóðlegrar verndar.
Gert er ráð fyrir að nefndin taki til starfa um næstu áramót en undirbúningur er þegar hafinn og stefnt að því að nefndin verði skipuð á næstunni.
Meðferða nýrra mála verði ekki lengri en 90 dagar
Verulegur árangur hefur náðst í að auka skilvirkni við afgreiðslu hælismála. Framangreindur samningur við Rauða krossinn mun enn fremur tryggja frekari skilvirkni og vandaðra verklag við meðferð hælisumsókna. Sökum þessa er gert ráð fyrir að í málum sem koma inn frá og með 25. ágúst 2014 verði málsmeðferðartími hælisumsókna hér á landi að meðaltali ekki lengri en 90 dagar á hvoru stjórnsýslustigi. Einstaka mál geta þó sætt undantekningum vegna sérstaka aðstæðna.
Ljóst er að margir hælisleitendur hafa beðið lengi eftir niðurstöðu í máli sínu og verður við mat á þeim umsóknum um hæli tekið tillit til þess þar sem ábyrgð á því er stjórnvalda, sérstaklega þegar um er að ræða börn og aðra viðkvæma umsækjendur. Í því samhengi skipta tengsl viðkomandi við landið máli sem og einstaklingsbundnar aðstæður viðkomandi.
Heildarendurskoðun útlendingalaga undirbúin
Innanríkisráðherra skipaði í ársbyrjun þverpólitíska þingmannanefnd til að meta hvort og þá með hvaða hætti þörf sé á heildarendurskoðun á löggjöf um málefni útlendinga á Íslandi. Formaður hennar er Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar. Störf nefndarinnar hafa gengið vel og vonast er til þess að næsta vetur liggi fyrir frumvarp um heildarendurskoðun útlendingalaga. Í vinnu að því frumvarpi verður lögð áhersla á samráð við helstu stofnanir og félagasamtök sem og þá sem nota kerfið, t.d. einstaklinga sem þegar hafa fengið hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.