Þörf á að tryggja fullnægjandi löggjöf gegn kynferðislegu ofbeldi í hernaði
„Við stjórnmálamennirnir þurfum að tryggja fullnægjandi löggjöf gegn kynferðislegu ofbeldi í hernaði og að henni sé framfylgt. Refsileysi við þessum alvarlegu afbrotum er algengt en algjörlega óásættanlegt, sagði Gunnar Bragi Sveinsson, á Global Summit to End Sexual Violence in Conflict í London í dag.
Á ráðstefnunni fjölluðu 48 ráðherrar og fulltrúar frá um 100 ríkjum um leiðir til að binda endi á kynferðislegt ofbeldi í stríðsátökum.
„Það er sérstaklega mikilvægt að huga að þeim fórnarlömbum kynferðislegs ofbeldis sem minni vitund er um, svonefndum ósýnilegum fórnarlömbum og, ekki síður, valdeflingu kvenna í baráttu okkar gegn kynferðislegu ofbeldi í hernaði,“ sagði Gunnar Bragi. Hann tekur þátt í ráðstefnunni í boði Williams Hague, utanríkisráðherra Bretlands, sem er í forystu fyrir alþjóðlega herferð til að binda enda á kynferðislegt ofbeldi í hernaði, ásamt Angelina Jolie, leikkonu og sérlegum sendimanni flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.