Stuðningur Íslands við friðaráætlun í Úkraínu
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fagnar því að Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, hafi lagt fram áætlun um hvernig stilla megi til friðar í landinu. Utanríkisráðherra segir íslensk stjórnvöld styðja friðaráætlunina sem sé mikilvægur grundvöllur þess að ofbeldi í austurhluta Úkraínu verði stöðvað. Hann segir áætlunina staðfesta að Poroshenko forseti leggi höfuðáherslu á að tryggja frið og öryggi fyrir alla íbúa landsins.
Íslensk stjórnvöld skora á alla hlutaðeigandi málsaðila í Úkraínu að styðja friðaráætlunina og virða ákvæði hennar þegar í stað. Í því sambandi er yfirlýstur stuðningur rússneskra stjórnvalda við áætlunina mikilvægt skref, sem og tilkynning forseta Rússlands um að hann hafi farið fram á það við rússneska þingið að það afturkalli heimild til hernaðaríhlutunar í Úkraínu.
„Það er afar brýnt að friðaráætlunin nái fram að ganga þannig að úkraínsk stjórnvöld geti unnið að nauðsynlegum umbótum í efnahagsmálum og að þeim stjórnkerfisbreytingum sem forsetinn hefur boðað. Á fundum mínum í Kænugarði í mars undirstrikaði ég mikilvægi þess að leita allra leiða til að tryggja friðsamlega lausn á deilunum í landinu. Ég lagði líka sérstaka áherslu á lýðræðisþróun, hversu áríðandi það er að virða mannréttindi, að réttur allra þjóðarbrota í landinu séu tryggður og að efnahagslíf Úkraínu verði endurreist til hagsbóta fyrir alla landsmenn,“ segir Gunnar Bragi.
Gunnar Bragi segir Ísland leggja sitt af mörkum til að lægja öldurnar í Úkraínu með framlagi til eftirlitsverkefnis Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Hann segir mikilvægt að tryggja óhindraða starfsemi ÖSE og annarra alþjóðastofnana í landinu og það sé forkastanlegt að eftirlitsfólki á vegum ÖSE sé enn haldið í gíslingu í austurhluta landsins. Hann skorar á þau öfl sem standa að baki gíslatökum að leysa alla einstaklinga úr haldi þegar í stað.