Hoppa yfir valmynd
25. júní 2014 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræða áherslumál leiðtogafundar

Í gær og í dag funduðu utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins um áherslumál komandi leiðtogafundar sem haldinn verður í Wales 4.-5. september nk.  Breyttar öryggishorfur í Evrópu í kjölfar aðgerða rússneskra stjórnvalda í Úkraínu settu mark sitt á alla umræðu á fundinum. Rætt var um styrkingu sameiginlegrar varnargetu og mikilvægi samstöðuaðgerða fyrir bandalagsríkin vegna þróunar mála í Úkraínu.

“NATO ríkin standa þétt saman, sem er gott veganesti fyrir leiðtogafundinn í haust. Á fundinum í dag ræddum við málefni Úkraínu og samstöðuaðgerðir sem styrkja eiga sameiginlegar varnir bandalagsríkjanna. Þá ræddum við mikilvægi stækkunarstefnu þess fyrir öryggis- og lýðræðisþróun í Evrópu,” sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

Pavlo Klimkin, nýr utanríkisráðherra Úkraínu, tók þátt í fundi NATO-Úkraínunefndarinnar og kom fram sterkur stuðningur bandalagsríkjanna við friðaráætlun úkraínskra stjórnvalda. Stækkunarstefna bandalagsins og staða einstakra umsóknarríkja var tekin til umræðu á fundinum. Samstaða var um að vinna náið með ríkjum sem sækjast eftir aðild. Ráðherrarnir voru sammála um að efna til viðræðna við Svartfjallaland og meta í framhaldinu hvort bjóða eigi landinu aðild. Þá er vilji til að auka enn á samvinnu bandalagsins við Georgíu.

Málefni Afganistan voru einnig í deiglunni, m.a. áframhaldandi stuðningsaðgerðir bandalagsins og samstarfsríkja í landinu eftir að aðgerðum alþjóðaliðs ISAF lýkur í lok þessa árs.

Myndir og fréttir frá fundinum er að finna á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins,  Þá eru myndir á flikcr-síðu ráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta