Endurnýjun norræns samstarfs
Fundur samstarfsráðherra Norðurlandanna fór fram á Hótel Rangá í dag og var aðalumræðuefni fundarins hvernig mætti endurnýja og efla norrænt samstarf. Til hliðsjónar í því ferli hafa verið 39 tillögur um endurnýjun og eflingu norræns samstarfs og lagðar voru fram í nýútkominni skýrslu Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, Ný Norðurlönd.
Markmiðið með skýrslunni er að tryggja framtíð norræns samstarfs og auka pólitíska umræðu og ákvarðanatöku. Norrænt samstarf þarf að vera í stöðugri endurnýjun til þess að það geti áfram verið öflugur vettvangur til að takast á við ný pólitísk úrlausnarefni.
"Samstarf Norðurlanda á að vera gagnlegt fyrir almenning á Norðurlöndum. Við þurfum á virku samstarfi að halda sem stýrt er með pólitískum ákvörðunum og sem grundvallast á skilvirku ákvörðunarferli og góðum stjórnsýsluháttum. Við þurfum meiri pólitík á norrænum vettvangi á komandi árum. Norræna ráðherranefndin og samstarfið verða að skila góðum árangri sem varðar þau úrlausnarefni sem ríkisstjórnir Norðurlanda eru að fást við hverju sinni", segir Eygló Harðardóttir samstarfsráðherra Íslands, sem fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári.
Á grundvelli þeirra tillagna sem lagðar eru fram í skýrslunni samþykktu ráðherrarnir ákveðnar endurbætur sem stuðla eiga að framþróun í norrænu samstarfi. Endurbæturnar snúast í meginatriðum um að bæta ákvörðunarferla, auka samstarf í alþjóðamálum og að efla gagnsemi samstarfsins. Markmiðið er að skapa sameiginlegan norrænan ávinning og áþreifanlegan árangur. Í norrænu samstarfi á að leggja áherslu á þau úrlausnarefni sem hafa beina þýðingu fyrir almenning á Norðurlöndum.
Vegabréfasambandið, sameiginlegur vinnumarkaður og félagsmálasáttmálinn eru dæmi um árangur af norrænu samstarfi. Á þessu ári lýkur verkefninu um skipti á upplýsingum um skattamál. Það samstarf hefur skilað skattgreiðslum upp á marga milljarða króna í ríkissjóði Norðurlanda, sem annars hefðu horfið í skattaskjól.
Endurbæturnar á samstarfi Norðurlanda eru einn liður í því að gera metnaðarfulla framtíðarsýn okkar um landamæralaus, nýskapandi, opin og sýnileg Norðurlönd að veruleika, segir Eygló Harðardóttir.Lesa má endurnýjunartillögurnar 39 í skýrslunni „Nytt Norden“ (Ný Norðurlönd) : „Nytt Norden“ Yfirlýsingu samstarfsráðherranna um framtíðarsýn má nálgast hér: Saman erum við sterkari.