Utanríkisráðherrar Íslands og Kína funda í Peking
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, átti í dag fund með utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, var þetta fyrsti formlegi fundur milli utanríkisráðherra Kína og Íslands eftir að leiðtogaskipti urðu í Kína í fyrra.
Ráðherrarnir ræddu samskipti ríkjanna almennt og sérstaklega um þann merka áfanga sem gildistaka fríverslunarsamnings ríkjanna væri. Ráðherrarnir sammæltust um að auka samráð og samstarf í málefnum norðurslóða, nýtingu auðlinda í sátt og samlyndi við náttúruna og þau tækifæri sem mögulega væru að opnast vegna nýrra siglingaleiða. Þá ræddu þeir ástand mála víðs vegar um heiminn, ekki síst þær viðsjár sem nú væru í Írak, Úkraínu og víðar.
Sagði kínverski utanríkisráðherrann samband Íslands og Kína einstakt. Viðskipti ríkjanna hefðu aukist þrátt fyrir efnahagslega lægð síðustu ára. Þá sagði hann frekari möguleika og tækifæri fyrir vöxt þegar fríverslunarsamningur milli landanna tekur gildi á þriðjudag, 1. júlí.
Síðdegis ávarpaði ráðherra viðskiptaþing íslenskra og kínverskra fyrirtækja, sem Íslandsstofa í samvinnu við CAWA (Samtök kínverskra heildsölumarkaða fyrir matvæli) stóð fyrir. Sagði ráðherrann mikilvægt að skoða hvernig auka mætti útflutning til Kína á íslenskum afurðum og yrði heimsókn viðskiptasendinefndar og þingið með kínverskum fyrirtækjum vonandi til þess að svo yrði. Efnahagur Kína er næst stærstur í heimi með vaxandi millistétt sem talið er að telji fleiri en samanlagður fólksfjöldi Bandaríkjanna. “Þessi staðreynd hefur og mun hafa áhrif á neyslu og viðskipti í heiminum og í því felast tækifæri fyrir Ísland”, sagði Gunnar Bragi Sveinsson við þetta tækifæri.
Þá átti utanríkisráðherra fund með varaforseta Sinopec samsteypunnar, Cao Yaofeng. Samstarfsverkefni á sviði jarðvarma og vaxandi vægi jarðvarma í orkubúskap Kína voru til umræðu á fundinum.
Í lok dags fundaði ráðherra með fulltrúum íslenskra fyrirtækja og viðskiptasendinefnd í nýju húsnæði sendiráðsins.
Á morgun fer ráðherra til Qingdao og kynnir sér starfssemi Eimskipa og fundar með ráðamönnum.