Frammistöðumat Eftirlitsstofnunar EFTA
Frammistöðumat Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) var kynnt í dag, 17. júlí. Þar er gerð grein fyrir árangri EES/EFTA-ríkjanna við innleiðingu EES-gerða og gerður samanburður á frammistöðu þeirra og aðildarríkja Evrópusambandsins. Þær upplýsingar sem fram koma í frammistöðumatinu miða við stöðuna 11. maí 2014.
Samkvæmt yfirliti ESA er Ísland í neðsta sæti þegar innleiðingarhalli EES-ríkjanna er tekinn saman yfir umrætt tímabil. Innleiðingarhalli Íslands er 3,1% sem samsvarar því að 34 tilskipanir hafa ekki verið innleiddar að fullu á réttum tíma. Innleiðingarhallinn þegar síðasta frammistöðumat var gert var 3,2%. Í Noregi jókst innleiðingarhalli tilskipana lítils háttar frá síðasta frammistöðumati og fór hann úr 1,8% í 1,9%. Liechtenstein hefur 0,7% innleiðingarhalla og er það í samræmi við meðaltal í ríkjum ESB.
Undanfarin ár hafa komið upp áskoranir við framkvæmd EES-samningsins sem snúa, m.a. að töfum við innleiðingu gerða í íslenskan rétt. Það er ljóst að þessi staða er óviðunandi og tekur Evrópustefna ríkisstjórnarinnar frá því mars sl. sérstaklega á þessum málum og setur fram skýr markmið hvað þau varðar. Unnið er af fullum krafti á grundvelli Evrópustefnunnar innan stjórnsýslunnar. Sem dæmi má nefna að EES-mál hafa frá gildistöku stefnunnar verið á dagskrá ríkisstjórnar þar sem m.a. er farið yfir innleiðingarstöðuna fyrir hvert og eitt ráðuneyti og verður svo áfram. Þá hefur forsætisráðherra skipað stýrihóp um framkvæmd EES-samningsins þar sem eiga sæti fulltrúar allra ráðuneyta og skrifstofu Alþingis og er hópnum m.a. ætlað að taka á innleiðingarhallanum. Samstarf við samstarfsríkin innan EES hefur verið dýpkað og miðar m.a. að því læra af hvort öðru hvernig megi sem best standa að rekstri EES-samningsins. Þá er fyrirhugað að koma á fót samstarfshópi um EES mál milli stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði með áherslu á hagsmunagreiningu EES reglna.
Markmiðin eru áfram skýr um að draga úr þeim halla á innleiðingu sem að framan greinir.