Gagnleg heimsókn ráðherra á Austurland
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og starfsfólk hans heimsótti Skógrækt ríkisins og Héraðs- og Austurlandsskóga í vikunni. Notaði ráðherra tækifærið til að kynna sér umhverfismál Alcoa í Reyðarfirði. Þá fundaði hann með sveitarstjórnarfólki á Austurlandi sem og forsvarsmönnum Austurbrúar og Náttúrustofu Austurlands.
Dagurinn hófst snemma með heimsókn í Skógrækt ríkisins þar sem ráðherra fékk kynningu á starfsemi stofnunarinnar og Héraðs- og Austurlandsskóga og leiðsögn um nokkur skógræktarsvæði þeirra. Kynnti ráðherra sér meðal annars kynbóta- og úttektarverkefni Skógræktarinnar, þær aðferðir sem notaðar eru við skógrækt á ólíkum stigum hennar sem og afurðaframleiðslu í sögunarmyllunni á Hallormsstað.
Lummubakstur í skóginum.
Þá kynnti ráðherra sér starfsemi álvers Alcoa og þá sérstaklega með tilliti til umhverfismála og mengunarvarna fyrirtækisins.
Síðdegis fundaði ráðherra með framkvæmdastjóra Austurbrúar um málefni stofnunarinnar, sem vinnur á þverfaglegan hátt að málefnum sem tengjast atvinnulífi, menntun og menningu á Austurlandi. Einnig átti ráðherra fundi með forstöðumanni Náttúrustofu Austurlands og sveitarstjórnarfólki.
Var heimsóknin afar fróðleg og upplýsandi um starfsemi og verkefni þessara ólíku aðila sem starfa á Austurlandi.
Gestir og gestgjafar Ráðherra og starfsfólk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fengu góðar móttökur.