Bein útsending frá jafnréttisráðstefnu á vefnum
Á morgun, þriðjudaginn 26. ágúst, fer fram í Hörpu norræn ráðstefna um jafnréttismál í tilefni 40 ára afmælis Norðurlandasamstarfs á sviði jafnréttismála. Ráðstefnan verður send út á vefnum og hefst útsending kl. 9:30.
Á ráðstefnunni verður fjallað um mótun og þróun norrænnar jafnréttisstefnu með áherslu á jafnrétti á vinnumarkaði, menntun, og aukna þátttöku karla og drengja í jafnréttisstarfi.
Ráðstefnan hefst með setningu Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, og hátíðarávarpi frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Dagskrá ráðstefnunnar er fjölbreytt og þar flytja erindi fyrirlesarar sem eru þekktir fyrir störf sín að jafnréttismálum á alþjóðavettvangi.
Ráðstefnan fer fram á Norðurlandamálum og túlkað verður á finnsku og íslensku.
- Vefslóð útsendingarinnar: http://jubilconf.yourhost.is/streaming
- Dagskrá ráðstefnunnar