Hoppa yfir valmynd
4. september 2014 Innviðaráðuneytið

Hlutur hafna í landsframleiðslu er verulegur

Hafnasambandsþing hófst í morgun á Ólafsfirði og stendur til morguns. Á dagskrá er meðal annars umfjöllun um fjárhag og stöðu hafna, efnahagsleg áhrif hafna og langtímastefna. Þá verður rætt um hafnalög og reglugerðir. Gísli Gíslason, formaður Hafnasambandsins, setti þingið og Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri innviðaskrifstofu innanríkisáðuneytisins, flutti ávarp fyrir hönd Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra.

Hafnasambandsþing stendur nú yfir á Ólafsfirði.
Hafnasambandsþing stendur nú yfir á Ólafsfirði.

Gísli Gíslason, formaður Hafnasambandsins, í ræðustóli.Í ávarpi sínu sagði Gísli Gíslason meðal annars að hlutur hafna í landsframleiðslu væri 0,3% þegar bein framlög hafna landsins væru metin en heildaráhrifin væru mun meiri. Heildartekjur hafna á síðasta ári námu yfir 7 milljörðum. Gísli kvaðst vona sterklega að frumvarp til breytinga á hafnalögum yrði lagt fram á Alþingi og samþykkt. Hann sagði margt hafa áunnist að undanförnu í málefnum hafna og ýmis tækifæri væru framundan sem vinna þyrfti að.

Sigurbergur Björnsson ávarpaði hafnasambandsþing fyrir hönd innanríkisráðherra.Sigurbergur Björnsson flutti fundinum kveðjur ráðherra og rakti síðan nokkur verkefni sem unnið er að í ráðuneytinu á sviði hafnamála. Sagði hann að frumvarp til breytinga á hafnalögum yrði lagt fyrir Alþingi fljótlega en það hefur verið samþykkt í báðum þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Efni þess byggist meðal annars á tillögum starfshóps um endurskoðun hafnalaga frá 2011. Meðal breytinga á gildandi lögum er að lagt er til að lögfest verði að íslenska ríkið geti verið eigandi hafnar, að eigendur hafna geti gert með sér samning um samrekstur einstakra þátta í starfsemi hafna í stað þess að samstarfið taki til starfseminnar í heild sinni og að kveðið verði á um þá hagsmuni og sjónarmið sem leggja beri til grundvallar við tillögugerð og forgangsröðun framkvæmda í samgönguáætlun. Einnig er lagt til að hækkuð verði hámarks styrkhlutföll til ýmiss konar framkvæmda eftir nánari skilyrðum.

Þá gat Sigurbergur um undirbúning fjögurra og tólf ára samgönguáætlana sem nú stæði yfir og yrðu tillögur kynntar fagráðum samgöngumála á næstunni. Einnig ræddi hann um verkefni sem tengjast þróun siglinga og verkefna sem tengjast norðurslóðum, bæði atvinnustarfsemi og leitar- og björgunarmálum.

Að lokum minntist Sigurbergur á að í kjölfar útboðs hafi nýlega verið samið við norskt fyrirtæki um hönnun nýrrar Vestmannaeyjaferju en gert er ráð fyrir að hönnun liggi fyrir uppúr áramótum. Þá liggur fyrir að bjóða út smíði og verður fjármögnun hugsanlega boðin út samhliða. Sagði hann vonir bundnar við að ný ferja geti hafið siglingar árið 2017.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta